Danir í lykilstöðu eftir sigur á Spánverjum

24.01.2016 - 21:46
epa04597614 Coach Gudmundur Gudmundsson of Denmark talks to players during the Qatar 2015 24th Men's Handball World Championship match for the 5th place between Croatia and Denmark at the Lusail Multipurpose Hall outside Doha, Qatar, 31 January 2015.
Guðmundur Guðmundsson er landsliðsþjálfari Danmerkur  Mynd: Qatar 2015 via epa
Danir undir stjórn Guðmunds Guðmundssonar eru í vænlegri stöðu eftir 23-27 sigur á Spánverjum á Evrópumótinu í handbolta sem fram fer í Póllandi. Góður kafli um miðbik seinni hálfleiks skóp sigurinn hjá Dönum sem hafa unnið alla leiki sína á mótinu til þessa.

Leikurinn var í járnum framan af en Spánverjar höfðu yfirhöndina og leiddu í hálfleik 14-11. Danir skoruðu sex mörk í röð um miðjan seinni hálfleik og breyttu stöðunni úr 18-17 yfir í 18-23 sem lagði grunn að frábærum sigri Dana.

Michael Damgaard var markahæstur hjá Dönum og skoraði sex mörk. Jesper Noddesbo kom næstur með fimm mörk og Niklas Landin varði vel í marki Dana, tók 17 bolta. Arpad Sterbik var maður leiksins þrátt fyrir að vera í tapliði en hann varði alls 21 skot í marki Spánar. Valero Rivera og Raul Entrerrios voru markahæstir hjá Spánverjum með fjögur mörk hvor.

Danir eru með sex stig í efsta sæti milliriðils 2 í þremur leikjum. Þjóðverjar hafa einnig sex stig en hafa leikið 4 leiki sem telja í milliriðli. Spánverjar hafa fjögur stig í þremur leikjum.

Mynd með færslu
Jón Júlíus Karlsson
íþróttafréttamaður