Dagur: Riðillinn er mjög sterkur

08.01.2016 - 21:01
Mynd með færslu
Dagur verður á hliðarlínunni hjá Þýskalandi í Póllandi í janúar.  Mynd: RÚV
Ísland og Þýskaland mætast tvívegis í vináttulandsleikjum í handbolta um helgina. Dagur Sigurðsson, þjálfari þýska liðsins, segir talsverðar væntingar vera til síns liðs í Þýskalandi eftir gott gengi á HM í fyrra en hann vill stíga varlega til jarðar.

Dagur stýrði þýska liðinu á sínu fyrsta stórmóti í fyrra og náði í 7. sæti og þar með sæti í forkeppni Ólympíuleikanna. Þessi árangur kom sumum á óvart þar sem Dagur hefur endurnýjað liðið talsvert síðan hann tók við fyrir einu og hálfu ári síðan. Í kjölfar HM hafa svo væntingar Þjóðverja til liðsins vaxið.

„Þær eru klárlega til staðar, það þurfti lítið til þess að kveikja undir þeim og á sama tíma held ég að þeir sem standa liðinu næst eru svona tiltölulega rólegir og vita það að við misstum tvo leikmenn út sem verða ekki með á mótinu þannig að menn vita það að menn þurfa aðeins að fylla upp í þau skörð,“ sagði Dagur í samtali við RÚV.

Þið þurfið ekki að berjast fyrir sæti í Ólympíuforkeppninni, hvaða kröfur og væntingar gerir þú til EM?

„Við spiluðum rosalega flotta forkeppni og lendum í potti þrjú sem að væri þá 9.-12. sæti. Ég vona að við náum því og ef gengur vel þá kannski kroppum við okkur eitthvað upp á við en riðillinn okkar er mjög sterkur með Spánverja, Svía og Slóvena, þannig ég geri mér alveg grein fyrir því að við getum tapað á móti öllum þessum liðum en við erum búnir að vera að spila nokkuð vel þetta ár, svona ágætlega stabílt og eiginlega ekkert í kortunum að við eigum eftir að renna á rassgatið með þetta en þetta verður rosa jafnt, í þessum riðli allavega.“

Leikirnir um helgina eru þeir síðustu hjá báðum liðum áður en haldið verður til Póllands þar sem EM hefst eftir viku. Aron Kristjánsson, þjálfari Íslands, fór með 18 leikmenn til Póllands en endanlegur hópur verður þó ekki klár fyrr en eftir leikina gegn Þjóðverjum.

„Við erum ekki búnir að klára þessa 17 það er að segja, það er ennþá opið,“ segir Aron.

Reiknaru þið þá með að fara með 17 til Póllands, hafa einn auka?

„Já, það er svona uppleikið og svona, það sem við búumst við að gera.“

Leikir Íslands og Þýskalands eru á morgun og sunnudag og hefjast báða daga klukkan 14 og verða sýndir beint á RÚV.

 

Einar Örn Jónsson
íþróttafréttamaður
Mynd með færslu
Jón Júlíus Karlsson
íþróttafréttamaður