Dagbók Önnu Frank á Netið

10.01.2016 - 16:53
Mynd með færslu
 Mynd: www.francebleu.fr
Franskur menntamaður og frönsk þingkona hafa sett dagbók Önnu Frank á netið og þar með opnað fyrir ókeypis aðgengi almennings að þekktustu endurminningabók seinni heimsstyrjaldarinnar. Anne Frank-sjóðurinn hótar málaferlum.

Anne Frank ritaði dagbók um hugrenningar sínar og líf frá júní 1942 til ágústmánaðar 1944, þegar hún og fjölskylda hennar földu sig fyrir nasistum í Amsterdam. Faðir hennar gaf bókina út á hollensku árið 1947. Hann ritskoðaði bókina og sleppti því að birta ákveðna kafla. Bókin hefur selst í 30 milljónum eintaka.

Olivier Ertzscheid, lektor við háskólann í Nantes og franska þingkonan Isabelle Attard settu bókina á netið á nýársdag. Samkvæmt evrópskum lögum rennur höfundarréttur út 70 árum eftir dauða höfundar.

Anne Frank-sjóðurinn, sem hefur höfuðstöðvar sínar í Sviss, fer með útgáfurétt bókarinnar. Talsmenn hans segja að verkið falli undir lög um verk sem komi út að höfundi látnum. Samkvæmt þeim rennur höfundarréttur út 50 árum eftir að verkið kemur út og telur sjóðurinn að miða beri við útgáfu hollensku stríðsskjalastofnunarinnar sem gaf út fræðilega útgáfu af dagbók Önnu Frank árið 1986. Því renni höfundarrétturinn ekki út fyrr en árið 2037. Sjóðurinn hefur hótað því að lögsækja hvern þann sem gefi bókina út opinberlega fyrir þann tíma.

Lektorinn og þingkonan réttlæta útgáfur sínar með því að bókin sé mikilvægt vopn í baráttunni fyrir frelsi og að mikilvægt sé að berjast gegn einkavæðingu þekkingar og upplýsinga.

 

Mynd með færslu
Pálmi Jónasson
Fréttastofa RÚV