Dæmi um fólk upp í nírætt á vinnumarkaði

11.09.2017 - 21:36
Mynd með færslu
 Mynd: Olga Björt Þórðardóttir
„Fólki var mikið niðri fyrir á fundinum og frítekjumarkið fólki ofarlega í huga,“ segir Gísli Jafetsson, framkvæmdastjóri FEB, um fjölmennan fund Félags eldri borgara í Reykjavík og Gráa hersins í Reykjavík í kvöld. „Frítekjumarkið var lækkað úr 109 þúsund krónum á mánuði í 25 þúsund um síðustu áramót með einni lagabreytingu. Fólk veltir fyrir sér af hverju það eigi að taka lengri tíma að hækka það aftur.“

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2018-2022 er talað um að hækka frítekjumarkið á fimm árum. Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra var á meðal þeirra sem héldu framsögu á fundinum. Hann talaði um lífeyrishluta almannatrygginga í sinni ræðu.

Gísli segir að ráðherra hafi fyrst og fremst talað um þá sem eru á vinnumarkaði en ekki þá sem eru á lífeyri sem einnig verði fyrir skerðingum því frítekjumarkið nái einnig til lífeyris. „Fólk er ekki sammála því að lífeyrir úr lífeyrissjóði eigi að vera fyrsta stoð. Almannatryggingar eiga að vera fyrsta stoð eins og almennt er í Skandinavíu. Það eru miklu færri sem eru skertir vegna atvinnutekna en vegna lífeyris, vegna þess að það er ekki litið á það sem skerðingu,“ segir Gísli.   

Mynd með færslu
 Mynd: Olga Björt Þórðardóttir

Í fundarboðinu segir að afnám frítekjumarks, meðal annars á launatekjur, muni virkja letjandi á eldra fólk að halda áfram störfum á vinnumarkaði og vinna þannig gegn því markmiði að hækka eftirlaunaaldur manna og fresta töku lífeyris til 80 ára aldurs.  

„Það eru ótrúlega mörg dæmi um fólk upp í nírætt sem er að vinna ennþá,“ segir Gísli. „Margir í kringum 70 til 75 ára sem eru að vinna til dæmis við leiðsögn, yfirsetu í skólum og fleira.“ Gísli telur að mörgum þeirra eigi eftir að bregða í brún á næsta ári þegar Tryggingastofnun gerir upp fyrri hluta næsta árs og telur tekjur yfir 25 þúsund krónum á mánuði til skerðingar. „Því þetta er fyrsta árið sem þetta er að koma til framkvæmda.“

Gísli segir fjölda fólks vilja vinna lengur en sé tilneytt til að hætta sökum aldurs. „Það vantar fólk á íslenskum vinnumarkaði. Hví ekki að nota það fólk sem vill vera á vinnumarkaði en er refsað með þessu lága frítekjumarki?“

Mynd með færslu
 Mynd: Olga Björt Þórðardóttir
Mynd með færslu
 Mynd: Olga Björt Þórðardóttir