Cruz sækir á - Clinton bætir í

epa05197091 Democratic presidential candidate Hillary Clinton speaks at a reception for the Michigan Democratic Party at the MGM Grand Hotel in Detroit, Michigan, USA, 05 March 2016. Michigan voters go to the polls to cast their votes in the Michigan
 Mynd: EPA
Ted Cruz og Donald Trump fóru með sigur af hólmi í tveimur ríkjum hvor í forkosningum repúblikanaflokksins í nótt. Cruz vann örugga sigra í Maine og Kansas en Trump nauma sigra í Louisiana og Kentucky. Bernie Sanders sigraði í tveimur ríkjum af þremur í forkjöri demókrataflokksins. Þrátt fyrir það náði Hillary Clinton að auka forskot sitt.

Cruz hlaut samanlagt 64 kjörmenn í ríkjunum fjórum en Trump 49. Uppskera þeirra Marco Rubio og John Kasich var afskaplega rýr í nótt og hvatti Trump Rubio til þess að draga framboð sitt til baka. Rubio, sem er öldungadeildarþingmaður Flórídaríkis, ætlar að öllum líkindum að þrauka til 15. mars, því þá er kosið í Flórída ásamt fimm öðrum ríkjum. 99 kjörmenn eru í boði í Flórída og hlýtur sigurvegari forkosninganna þar þá alla. Mistakist Rubio að fagna sigri þar má búast við því að hann íhugi framtíð sína.

Cruz gekk lengra en Trump og bað bæði Rubio og Kasich að draga framboð sín til baka svo hann geti tekið slaginn einn gegn Trump.

Trump er nú með 378 kjörmenn á bakvið sig, Cruz er með 295, Rubio 123 og Kasich rekur lestina með aðeins 34. 1.237 kjörmenn þarf til þess að hljóta útnefningu flokksins.

Bernie Sanders fagnaði góðum sigri í Kansas og öruggum sigri í Nebraska. Bæði ríkin færa frambjóðendunum hins vegar fáa kjörmenn og kom Hillary Clinton því betur út úr nóttinni þrátt fyrir að hafa aðeins unnið eitt af þremur ríkjum í nótt. Louisianaríki tryggði Clinton 35 af 55 kjörmönnum sem hún græddi í nótt. Sanders hlaut 47. Forkosningum demókrataflokksins er nú lokið í 18 ríkjum og hefur Sanders tekist að fagna sigri í 7 þeirra en Clinton 11. 

Í bandarískum fjölmiðlum er munurinn á kjörmönnum Clinton og Sanders sýndur mjög stór, eða 1.121 gegn 479. Þar eru meðtaldir 712 óbundnir kjörmenn sem mæta á landsfund flokksins. Associated Press fréttastofan gerði könnun á meðal þeirra. Af þeim sem sögðust búnir að gera upp hug sinn svöruðu 458 því að þeir velji Clinton en 22 Sanders. Þegar aðeins er litið til bundinna kjörmanna, það er þeirra sem kosið er um í hverju ríki, þá er Clinton með 663 kjörmenn gegn 457 hjá Sanders. 2.383 kjörmenn þarf til þess að fá útnefningu flokksins.