Cruz og Sanders sækja á Trump og Clinton

epa05159538 Republican Presidential Candidate and Businessman Donald Trump (R) speaks as US Senator from Texas Ted Cruz (L) listens during the Republican Presidential Debate sponsored by CBS News and the Republican National Committee at the Peace Center
 Mynd: EPA
Ted Cruz er sigurvegari í forkosningum forsetaframbjóðenda repúblikanaflokksins í Kansasríki og Maine. Donald Trump hefur betur í Louisiana og Kentucky. Bernie Sanders fer með sigur af hólmi í tveimur af þremur ríkjum þar sem demókratar greiða atkvæði. Fylgst verður með gangi mála í nótt í þessari frétt og hún uppfærð um leið og nýjar tölur berast.

Uppfært 03:59: Þar með er ljóst hverjir sigra í hvaða ríki. Hjá repúblikönum sigrar Trump í Kentucky og Louisiana en Cruz tekur Kansas og Maine. Sanders fær flest atkvæði demókrata í Kansas og Nebraska en Clinton sigrar í Louisiana. Ekki er enn ljóst hversu marga kjörmenn hver frambjóðandi fær.

Uppfært 03:48: Trump er sigurvegari í Kentucky. Innan við fjórum prósentustigum munar á milli hans og Ted Cruz þegar tæp 70 prósent atkvæða hafa verið talin. Eins og staðan er nú fá þeir jafn marga kjörmenn úr ríkinu.

Uppfært 02:33: Trump sigrar í Louisiana. Hann hefur einnig dágott forskot í Kentucky.

Uppfært 02:20: Fjölmiðlar hafa lýst yfir sigri Hillary Clinton í Louisiana. Þar er Donald Trump með gott forskot á Ted Cruz miðað við fyrstu tölur.

Uppfært 02:08: Bernie Sanders er með tíu prósentustiga forskot á Hillary Clinton í Nebraska þegar aðeins á eftir að telja fjórðung atkvæða. Hann er útnefndur sigurvegari. Tvö ríki í röð hjá Sanders og Cruz.

Uppfært 02:07: Ted Cruz sigrar í Maine. Hlýtur 46 prósent atkvæða en Donald Trump hlýtur um 33 prósent. 

Uppfært 01:42: Sanders er að vonum kampakátur með úrslitin í Kansas.

Uppfært 01:34: Trump er með gott forskot í Kentucky þegar rúmur fjórðungur atkvæða hefur verið talinn. Fátt getur komið í veg fyrir sigur hans þar. Cruz heldur forskoti sínu í Maine en aðeins 9 prósent atkvæða hafa verið talin. AFP fréttastofan fullyrðir að Bernie Sanders hafi sigrað í Kansasríki. Hann var tíu prósentustigum undir Hillary Clinton í könnunum í febrúar.

Cruz er einnig með forskot í Maine þegar lítill hluti atkvæða hefur verið talinn. Einnig eru forkosningar í Kentucky og Louisiana, en engar tölur hafa borist þaðan enn. Fáir kjörmenn eru í boði í þessum ríkjum en með góðum sigrum gæti Cruz komist nær Trump í kapphlaupinu um tilnefningu flokksins.

Forkosningar demókrataflokksins fara fram í þremur ríkjum, Nevada, Kansas og Louisiana, en tölur hafa ekki borist þaðan.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV