Costco eigi eftir að breyta markaðinum

09.02.2017 - 21:32
Gleraugu, dekk, bakkelsi og nærföt - verða í boði fyrir Íslendinga, í vöruhúsi Costco sem verður opnað í lok maí. Steve Pappas, varaforstjóri Costco í Evrópu, segir að verslunin muni breyta markaðinum hér á landi og auka samkeppni.

Kynningarfundur fór fram í dag fyrir fullum sal af birgjum og fjölmiðlum. Þar var framtíð Costco rædd og kom fram að verslunin mun opna í lok maí. Stefnt er að því að ráða 200 starfsmenn sem munu allt vera Íslendingar. 

Aðgangur að vöruhúsi Costco er einungis fyrir þá sem eru með aðild. Ársaðild að Costco fyrir einstaklinga mun kosta 4.800 kr. og þá mun fyrirtækjaaðild kosta 3.800 kr. Aðildin gildir líka í öll vöruhús Costco í heiminum en þau eru um 725 talsins.  

Í Costco verður í boði matvara, klæðnaður, raftæki, verkfæri og heimilisbúnaður svo fá eitt sé nefnt. Þá verður einnig lyfjaverslun, hjólbarðamiðstöð, gleraugnaverslun og veitingastaðir.

Bensínstöð verður fyrir utan búðina þar sem selt verður Kirkland Signature eldsneyti sem verður keypt af innlendum olíufyrirtækjum. Steve segir að Costco sé þekkt fyrir að selja vörur í miklu magni. 

 

 

Mynd með færslu
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV