Costco dæmt til hárrar sektargreiðslu

16.08.2017 - 02:07
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Verslanakeðjan Costco verður að greiða skartgripaframleiðandanum Tiffany 19,4 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði rúmlega tveggja milljarða króna, fyrir að nota vörumerkið ólöglega.

Málið hefur velkst um í bandarískum dómstólum frá árinu 2013. Costco rekur málið á þeim forsendum að hringirnir, sem málið snýst um, séu þekktir sem Tiffany-hringir, en samkvæmt dómsúrskurði má verslanakeðjan aðeins segja að þeir séu í stíl skartgripaframleiðandans.

Alls seldust 2.500 hringir í Costco merktir Tiffany, en þeir voru ekki framleiddir af þeim. Þeim svipar þó til þeirra, eru einfaldir, þar sem sex tindar halda demanti uppi á þunnu bandi.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir lögmanninum Kate Swaine að sektargreiðslan virðist nokkuð há miðað við fjölda seldra hringa. Eigendur vörumerkja hljóti þó að vera ánægðir með dóminn.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV