Clinton og Trump í góðri stöðu eftir nóttina

Mynd með færslu
 Mynd: AP (samsett)
Hillary Clinton og Donald Trump unnu hvort um sig sigur í sjö ríkjum á ofur þriðjudeginum svokallaða. Það er því fátt sem getur komið í veg fyrir útnefningu þeirra sem frambjóðendur flokka sinna til forsetakosninganna í nóvember á þessu ári.

Uppfært 09:15 Ted Cruz vann sigur í Alaska ríki, síðasta ríkinu þar sem úrslit urðu ljós. Þegar 95% atkvæða höfðu verið talin, hafði Cruz fengið 36% en Trump 34%. Marco Rubio fékk 15% í Alaska. Cruz vann því sigur í þremur ríkjum af 12 í nótt. Donald Trump sigraði í sjö ríkjum og Marco Rubio í einu.

Uppfært 06:09 Eins og staðan er nú er Hillary Clinton komin með 1.001 kjörmann af þeim 2.382 sem hún þarf til þess að tryggja sér útnefningu flokksins. Eftir nóttina er Sanders með 371 kjörmann á bak við sig.
Hjá Repúblikanaflokknum er 274 kjörmenn af þeim 1.237 sem þarf til sigurs. Ted Cruz er með 149 og Marco Rubio með 82.

Uppfært 05:18 Niðurstaðan hjá Demókrataflokknum:
Hillary Clinton sigrar í Alabama, Arkansas, Georgíu, Massachusetts, Tennessee, Texas og Virginíu.
Bernie Sanders sigrar í Colorado, Minnesota, Oklahoma og Vermont.

Uppfært 05:16 Niðurstaðan hjá Repúblikanaflokknum þegar aðeins á eftir að telja í Alaska er þá þessi:
Donald Trump sigrar í Alabama, Arkansas, Georgíu, Massachusetts, Tennessee, Virginíu og Vermont.
Ted Cruz sigrar í Oklahoma og Texas.
Marco Rubio sigrar í Minnasota.

Uppfært 05:09 Trump tekur enn eitt ríkið. Nær naumum sigri á Kasich í Vermont. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvað Kasich og Ben Carson gera í kjölfar þessa stóra dags en þeim tókst hvorugum að setja mark sitt á neitt ríkjanna tólf.

Uppfært 04:19 Sanders hefur betur gegn Clinton í Colorado. Öruggur sigur þar. Sanders þar með búinn að sigra í þremur ríkjum en Clinton í sex.

Uppfært 04:17 Marco Rubio fagnar sínum fyrsta sigri í nótt. Hann er sigurvegari í Minnesota með um 37 prósent atkvæða. Cruz er næstur með 28 prósent og Trump þriðji með 21 prósent.

Uppfært 03:43 Hillary Clinton sagði í ræðu sinni í Flórída í nótt að ekki þyrfti að gera Bandaríkin frábær aftur, því þau hafi aldrei hætt að vera það. Frekar þurfi að sameina þjóðina og það verði hægt undir hennar stjórn.

Uppfært 03:30 Ted Cruz skaut fast á Trump í ræðu sinni í Texas í nótt. Hann segir Bandaríkin ekki geta haft forseta sem segir hluti sem fólk myndi skammast sín fyrir að heyra börnin sín segja. Þá minnti hann á að hann væri sá eini sem væri búinn að fagna sigri gegn Trump og það í þremur ríkjum það sem af er. Það gæti þó breyst því Marco Rubio er með gott forskot í efsta sætinu í Minnesotaríki.

Uppfært 03:24 Trump er yfirlýstur sigurvegari í Arkansasríki. Hann hefur 35 prósent fylgi þar en Ted Cruz er næstur með 28 prósent.

Uppfært 03:06 Trump sagði í sigurræðu sinni í Flórída í nótt að repúblikanaflokkurinn verði stærri og samheldnari flokkur með hann við stjórnvölinn. Hann segist sigurviss fyrir kosningarnar í nóvember.

Uppfært 02:16 Sanders hefur betur gegn Clinton í Oklahoma. Enn er of mjótt á mununum í Massachusetts til þess að hægt sé að lýsa yfir sigurvegara þar.

Uppfært 02:10 Cruz og Clinton yfirlýstir sigurvegarar í Texas. Cruz sigrar einnig í nágrannaríkinu Oklahoma.

Uppfært 01:30 Það er byrjað að telja í Texas. Þar eru langflestir kjörmenn í boði í kvöld, 155 hjá repúblikanaflokknum og 222 hjá demókrataflokknum. Ted Cruz er ansi sigurstranglegur í Texas, enda öldungadeildarþingmaður repúblikana í ríkinu. Hann er efstur miðað við fyrstu tölur, með tíu prósentustiga forskot í Trump. Clinton er með 40 prósentustiga forskot á Sanders í ríkinu.

Uppfært 01:15 Samkvæmt fyrstu tölum í Oklahoma og Massachusetts er Sanders með talsvert forskot á Clinton. 

Uppfært 01:05 Clinton og Trump bera sigur úr býtum í Alabama og Tennessee samkvæmt fréttaveitum. Trump er einnig sigurvegari repúblikanaflokksins í Massachusetts.

Uppfært 00:24 Litlu munar á Trump og Marco Rubio í Virginíuríki miðað við fyrstu tölur. Þegar búið er að telja um eitt prósent atkvæða í ríkinu er munurinn um átta prósentustig, Trump með tæp 39 prósent og Rubio tæpt 31.

00:17 Samkvæmt allra fyrstu tölum lítur út fyrir að Clinton fari með sigur af hólmi í Virginíu- og Georgíuríkjum, en Bernie Sanders hefur betur í Vermont, en hann er einmitt öldungardeildarþingmaður ríkisins.

Að sögn AFP fréttaveitunnar er Donald Trump sigurvegari í Georgíuríki miðað við fyrstu tölur.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV