Clinton marði Sanders

02.02.2016 - 05:55
epa05139182 US Democratic presidential candidate Hillary Clinton (C) speaks as her husband former US President Bill Clinton (L) and her daughter Chelsea Clinton (R) look on, during the Democratic Caucuses night campaign rally at Olmsted Center, Drake
 Mynd: EPA
Hillary Clinton virðist hafa haft betur í afar tvísýnum slag við Bernie Sanders, í fyrstu forkosningum Demókrataflokksins, sem fram fóru í Iowa í nótt. Skiptu þau 99% atkvæða nokkurnveginn jafnt á milli sín, en þriðji frambjóðandinn, Martin O'Malley, fyrrverandi ríkisstjóri í Maryland, fékk innan við 1% atkvæða og hefur nú dregið framboð sitt til baka. Baráttan um að verða frambjóðandi demókrata í forsetakosningunum þann 8. nóvember næstkomandi stendur því eingöngu milli Clinton og Sanders.

Svo lítill munur er á fylgi þeirra Clinton og Sanders, langt innan við eitt prósentustig, að ekki var enn búið að kveða upp úr um endanleg úrslit þegar þau ávörpuðu stuðningsfólk sitt, ríflega tveimur klukkustundum eftir að kjörfundi lauk. Ef  Clinton hefur betur fær hún 22 kjörmenn frá Iowa, en Sanders 21.

Jafnvel þótt niðurstaðan verði þessi vilja margir - og þá helst andstæðingar Clinton - túlka hana sem ósigur fyrir Clinton, og sigur fyrir Bernie Sanders. Sanders sjálfur gekk ekki svo langt í ávarpi sínu, heldur talaði um „jafntefli í raun“. Clinton varaðist að vera of sigurreif í sínu ávarpi, en þakkaði kjósendum í Iowa stuðninginn og hét því að berjast áfram sem aldrei fyrr. Það gerði Sanders einnig. 

Skoðanakannanir benda til þess að Clinton þurfi að hafa enn meira fyrir sigrinum í næstu forkosningum flokksins, sem fara fram í New Hampshire þann 9. þessa mánaðar. Af 20 könnunum sem gerðar hafa verið það sem af er þessu ári sýna 19 umtalsvert meiri stuðning við Sanders. Eina könnunin sem sýnir Clinton með meira fylgi er sú fyrsta sem gerð var á árinu - allar kannanir síðan þá hafa sýnt Sanders með öruggt forskot.