Charlie Hebdo grínast með hryðjuverkin

26.03.2016 - 05:57
Mynd með færslu
„Hvar er taskan mín?“ og „Aldrei á réttum tíma!“ segja þeir á vinstri myndinni. Yfirskrift myndarinnar af lukkuhjólinu: „Hryðjuverkaógnin: Allur heimurinn á möguleika“  Mynd: Charlie Hebdo  -  Twitter
Myndir í nýjasta tölublaði hins umdeilda franska skopmynda- og ádeilurits, Charlie Hebdo, vekja mikla reiði og hneykslan. Í því má finna þó nokkrar skopmyndir þar sem höfundar blaðsins gera hryðjuverkunum í Brussel skil á sinn hátt. Sumar þessara mynda hafa verið harðlega fordæmdar, bæði í fjölmiðlum og í samfélagsmiðlum.

Ein teikningin sýnir þannig tvo menn, nánast á kafi í blóði og umkringda sundurtættum líkamsleifum, og það eina sem þeir hafa áhyggjur af er hvað orðið hefur af ferðatöskunni og því, að nú verði örugglega seinkanir á flugi.

Önnur mynd sem litla kátínu hefur vakið sýnir kuflklædda mannveru sem einnig hylur andlit sitt, og á að líkindum að tákna arabískan hryðjuverkamann, sem virðist í þann mund að snúa einhvers konar lukkuhjóli. Á því eru nöfn níu evrópskra stórborga. Útgangspunkturinn er að allir eigi möguleika, þar sem hryðjuverk eru annars vegar.

Viðbrögðin á Twitter og Facebook voru nánast öll á einn veg; fólk kunni ekki að meta grínið og kallaði það viðbjóðslegt og óviðeigandi, svo tvö tiltölulega pen orð séu valin. Ritstjórn Charlie Hebdo veigraði sér heldur ekki við að takast á við hryðjuverkin í París í nóvember. Sumar myndirnar sem birtust í blaðinu í kjölfar þeirra þóttu í besta falli dansa á mörkum hins boðlega, en höfundar blaðsins hafa aldrei verið smeykir við að ganga fram af meðaljóninum, og heldur ekki hinum, sem telja sig til umburðarlyndustu manna. Í janúar á síðasta ári létust 17 í hryðjuverkaárás, sem beindist fyrst og fremst að ritstjórnarskrifstofum blaðsins, vegna meintrar óvirðingar höfunda þess við spámanninn Múhameð.