Chambers: „Að vera hreinskilinn var erfiðast“

21.01.2016 - 20:14
Breski spretthlauparinn Dwain Chambers kom hingað til lands undir kvöld. Chambers sem er fyrrverandi heims- og Evrópumeistari í 60 metra hlaupi keppir í 60 metra hlaupi á Reykjavíkurleikunum á laugardag.

„Ég er að undirbúa mig fyrir Ólympíuleikanna í Ríó og Heimsmeistaramótið í mars og mér fannst það gott tækifæri fyrir mig að komast í keppnisform með því að keppa á Íslandi,“ sagði Chambers í samtali við Þorkel Gunnar Sigurbjörnsson, íþróttafréttamann RÚV, í dag.

Chambers féll á lyfjaprófi árið 2003 og var í kjölfarið dæmdur í tveggja ára keppnisbann. Í kjölfarið meinaði breska Ólympíunefndin honum að keppa aftur á Ólympíuleikum, en Chambers fór í mál og vann það og var því meðal keppenda í London 2012. Chambers heldur fyrirlestur í Háskólanum í Reykjavík í kvöld þar sem hann fer yfir það hvernig var að koma til baka eftir lyfjabannið.

„Ég vona að mér takist að fræða unga íþróttamenn um þann dimma öldudal sem ég fór í gegnum og ég vona að mér takist að hvetja þau í rétta átt,“ segir Chambers sem viðurkennir að það hafi verið erfitt að snúa aftur eftir keppnisbannið.

„Það erfiðasta við endurkomuna var að vera hreinskilinn og segja sannleikann. Maður á alltaf eftir að mæta mótlæti vegna þess sem gerðist í fortíðinni. Að segja sannleikann er eina leiðin áfram svo ég geti keppt í íþróttinni sem ég var valinn til að keppa í.“

Mynd með færslu
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson
íþróttafréttamaður
Mynd með færslu
Jón Júlíus Karlsson
íþróttafréttamaður