Cameron: Vill áframhaldandi aðild að ESB

20.02.2016 - 00:49
epa05171274 Britain's Prime Minister David Cameron holds a news conference after the second day of an extraordinary two-day EU summit at EU the headquarters in Brussels, Belgium, 19 February 2016. Negotiations over a reform deal that is meant to keep
David Cameron gekk sáttur frá samningaborðinu í kvöld.  Mynd: EPA
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, leggur mikla áherslu á að Bretar haldi sig innan Evrópusambandsins eftir að samningar náðust milli ESB og Breta í kvöld. Bretar greiða atkvæði um áframhaldandi aðild að ESB á næstu mánuðum.

Cameron segir samninginn veita Bretum sérstaka stöðu innan ESB. Samningurinn veitir heimild til þess að halda aftur af komu innflytjenda til Bretlands og verja stöðu breska hagkerfisins sem notar enn sterlingspund í stað evru. Hann segir samninginn duga til þess að hann ráðleggi Bretum að halda sér innan ESB. Hann segir að Bretland muni alltaf standa utan þess sem virkar ekki fyrir þjóðina en taka þátt í því sem virkar. 

Cameron segir ESB ætla að efla efnahagslega samkeppni með því að minnka skriffinsku og styrkja viðskiptasamninga við stærstu hagkerfi heims. Bretar muni hagnast um milljarða sterlingspunda á ári vegna þess að sögn Camerons.
Þá segir Cameron að aðildarríki ESB hafi samþykkt að mæta kröfum hans um að bótagreiðslur til farandverkafólks verði takmarkaðar, og eftirlit með svikum og misnotkun verið hert. Hundruð þúsunda verkamanna úr austanverðri álfunni vinna í Bretlandi. Heimaþjóðir þeirra segja kröfurnar óréttlátar og stríði gegn stefnu ESB um frjást flæði vinnuafls.

 

I believe Britain is stronger, safer and better off within a reformed European Union. My statement on tonight's deal:

Posted by David Cameron on 19. febrúar 2016

Francois Hollande, forseti Frakklands, segir samninginn ekki veita Bretum neina undanþágu frá reglum ESB. Bretar fái enga sérstaka greiða í samningnum og engar reglur sambandsins séu brotnar með samningnum. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir samninginn sanngjarna málamiðlun. Það reyndist ekki auðvelt að semja um öll atriði en hún telur sambandið ekki hafa gefið of mikið eftir til Bretlands.