Burnley vann á Brúnni - Úrslit dagsins

12.08.2017 - 16:09
epa06140117 Burnley Sam Vokes (2-R) celebrates scoring a goal during the English Premier league game between Chelsea and Burnley at Stamford Bridge stadium in London, Britain, 12 August 2017.  EPA/FACUNDO ARRIZABALAGA EDITORIAL USE ONLY. No use with
 Mynd: EPA
Fyrsta umferð enska boltans hélt áfram í dag. Stærstu fréttir dagsins eru sigur Burnley gegn Chelsea á Brúnni en Jóhann Berg Guðmundsson var að sjálfsögðu í byrjunarliði Burnley í dag. Einnig skoraði Wayne Rooney sigurmarkið í sínum fyrsta deildarleik fyrir Everton en hann gekk aftur í raðir þeirra bláklæddu í sumar.

Chelsea 2-3 Burnley
Leikmenn Chelsea virkuðu einstaklega pirraðir þegar flautað var til leiks í dag en eftir aðeins fjórtán mínútur fékk fyrirliði Chelsea, Gary Cahill, beint rautt spjald fyrir glæfralega tæklingu. Nokkrum mínútum síðar fékk Cesc Fabregas svo gult spjald fyrir að klappa kaldhæðnislega fyrir dómaranum.

Ekki skánaði skap leikmanna Chelsea þegar Sam Vokes kom Burnley yfir á 24. mínútu en Burnley gerði sér lítið fyrir og var 3-0 yfir í hálfleik. Fyrst skoraði Stephen Ward frábært mark áður en Vokes skoraði annað mark sitt í leiknum.

Á 68. mínútu skoraði varamaðurinn Alvaro Morata fyrir Chelsea en hann kom til félagsins frá Real Madrid í sumar. Aðeins fimm mínútum síðar hélt Chelsea að þeir hefðu minnkað muninn enn frekar en Morata var flaggaður rangstæður.

Fabregas sá eflaust eftir gula spjaldinu sem hann fékk fyrir klappið en á 81. mínútu fékk annað gult spjald fyrir lélega tæklingu og Chelsea menn því níu á vellinum síðustu níu mínútur leiksins. Chelsea menn létu það ekki á sig fá en þegar tvær mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma minnkaði David Luiz muninn í 3-2 eftir að Morata hafði skallað knöttinn inn fyrir vörn Burnley.

Strax í næstu sókn fengu Burnley aukaspyrnu sem Robbie Brady setti í stöngina. Chelsea gerði svo allt sem þeir gátu til að jafna leikinn og komust óhemju nálægt því að ná í stig. Lokatölur hins vegar 3-2 fyrir Burnley í mögnuðum knattspyrnuleik.

epa06140108 Chelsea Gary Cahill (2-R) receives a red card during the English Premier league game between Chelsea and Burnley at Stamford Bridge stadium in London, Britain, 12 August 2017.  EPA/FACUNDO ARRIZABALAGA EDITORIAL USE ONLY. No use with
 Mynd: EPA

Crystal Palace 0-3 Huddersfield Town
Nýliðar Huddersfield Town gerðu sér lítið fyrir og unnu frábæran útisigur á Crystal Palace í dag. Fyrstu tvö mörk leiksins komu á þriggja mínútna kafla í fyrri hálfleik en Joel Ward varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 23. mínútu og Steve Mounie skoraði svo annað mark nýliðanna eftir sendingu frá Aaron Mooy en Huddersfield keypti þá Mounie og Mooy í sumar.

Á 78. mínútu skoraði Steve Mounie sitt annað mark og þriðja mark Huddersfield eftir sendingu frá Collin Quaner.

Everton 1-0 Stoke City
Wayne Rooney tryggði Everton þrjú stig en hann skoraði eftir sendingu frá Dominic Calvert-Lewin.

epa05438990 Manchester United's Wayne Rooney (L) attends his team's training session at the Olympic Sports Center in Beijing, China, 24 July 2016. Manchester United will face Manchester City in the International Champions Cup soccer match on 25
 Mynd: EPA

Southampton 0-0 Swansea City
Swansea City náðu í gott stig á útivelli en flestir hafa spáð þeim falli. Liðið lék án Gylfa Sigurðssonar en hann ku vera á leiðinni til Everton.

West Bromwich Albion 1-0 AFC Bournemouth
Tony Pulis og félagar í WBA byrja tímabilið á sigri en liðið vann Bournemouth 1-0 á heimavelli. Markið skoraði Ahmed Hegazy eftir sendingu Chris Brunt. Að sjálfsögðu kom það eftir fast leikatriði.

Síðasti leikur dagsins er svo leikur Brighton & Hove Albion og Manchester City en hann hefst klukkan 16:30. Á morgun mætast svo Newcastle United og Tottenham Hotspur klukkan 12:30. Klukkan 15:00 er svo viðureign Manchester United og West Ham United.

Mynd með færslu
Manchester United mætir Saint Etiénne í Evrópudeildinni.  Mynd: RÚV
Mynd með færslu
Runólfur Trausti Þórhallsson
íþróttafréttamaður