„Búnir að ná stjórn á eldinum“ - myndskeið

07.03.2016 - 22:06
MIkill eldur kom upp í iðnaðarhúsnæði við Grettisgötu 87 í kvöld. Allt tiltækt lið slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu var kallað út og hringt var í alla slökkviliðsmenn á frívakt. Slökkvistarf hefur gengið vel en mikinn og gúmmílykt lagði yfir Snorrabraut og Grettisgötu þannig að nokkrir íbúar sáu sig tilneydda til að flýja íbúðir sínar. Slökkviliðsstjóri segir að húsið hafi verið það gamalt að þeir hafi ekki þorað að senda neina slökkviliðsmenn inn.

Bergljót Baldursdóttir, fréttamaður, hefur fylgst með slökkvistarfinu í kvöld. Hún segir að nú sjáist ekki lengur eldstungur og búið væri að kalla sjúkrabíla til baka.  Íbúi sem fréttastofa ræddi við sagði lögregluna og slökkviliðið hafa verið fljót að girða af svæðið.

Bergljót ræddi við Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóra í tíu fréttum Sjónvarps. Hann sagði að þeir væru búnir að ná stjórn á eldinum en ekki væri búið að ráða niðurlögum hans. Þeir væru búnir að tryggja að eldurinn færi ekki í önnur hús og að íbúar í næsta nágrenni gætu verið rólegir.

Jón Viðar sagði að þeir væru búnir að ná stjórn á eldinum. Hann sagðist ekki gera sér grein fyrir því hvort tekist hefði að bjarga annarri starfsemi í húsinu - hann óttaðist að mikið tjón hefði orðið í brunanum. „Það er svona mín tilfinning,“ sagði Jón Viðar.

Hann sagði að mikill eldur hefði verið þegar þeir komu á staðinn og þar sem húsið hefði verið gamalt hefði enginn slökkviliðsmaður verið sendur inn. „Við tökum enga sénsa með slíkt,“ sagði Jón - þetta hefði gert þeim erfiðara um vik því þeir hefðu þá þurft að vinna alla vinnuna utan frá.