Búist við að Museveni verði endurkjörinn

18.02.2016 - 09:12
epaselect epa05164677 Accompanied by his wife Janet Museveni (L), Uganda's incumbent President Yoweri Museveni (R) greets his supporters upon his arrival at his last campaing rally in Kampala, Uganda, 16 February 2016. Ugandan police confirmed that
Museveni forseti og eiginkona hans koma til kosningafundar í höfuðborginni Kampala í fyrradag.  Mynd: EPA
Búist er við að Yoweri Museveni verði endurkjörinn forseti Úganda í kosningum sem fram fara í dag. Museveni hefur verið við völd í Úganda síðan 1986 og er í hópi þeirra Afríkuleiðtoga sem lengst hafa setið á valdastóli.

Sjö menn bjóða sig fram gegn honum, en að sögn breska útvarpsins BBC eru einungis tveir þeirra taldir geta veitt forsetanum einhverja keppni, þeir Amama Mbabazi, fyrrverandi forsætisráðherra, og Kizza Besigye, sem er að bjóða sig fram gegn Museveni í fjórða skipti. Kjósa þarf aftur milli tveggja efstu frambjóðenda ef enginn nær hreinum meirihluta í kosningunum í dag.

Í dag er einnig kosið til þings og sveitarstjórna í Úganda. Í þingkosningunum keppa 29 flokkar um 290 þingsæti og segja fjölmiðlar fastlega búist við að stjórnarflokkurinn NRM beri sigur úr býtum. 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV