Búast má við talsverðu frosti eftir helgi

08.01.2016 - 07:24
Mynd með færslu
 Mynd: Ísnálar á Egilsstöðum  -  RÚV - Rúnar Snær Reynisson
Búist er við stormi, meira en 20 m/s á landinu. Spáð er austan og norðaustan átt í dag, 15 til 23 m/s í fyrstu, hvassast norðvestantil á landinu og allra syðst, en dregur síðan smám saman úr vindi, yfirleitt 8-15 m/s síðdegis, en 5-13 m/s á morgun. Skýjað með köflum og yfirleitt þurrt vestantil á landinu, en annars dálítil él, einkum suðaustan- og austanlands.

Kólnar smám saman í veðri og seint á morgun ætti að vera komið frost um mest allt land. Næstu daga kólnar enn frekar og má búast við talsverðu frosti eftir helgi.

Veðurspáin til miðnættis annað kvöld er á þessa leið: austan og norðaustan 15-23 m/s, hvassast norðvestantil á landinu og allra syðst og víða hvassir vindstrengir við fjöll. Þurrt að mestu vestanlands, en annars dálítil él, einkum suðaustan- og austantil. Dregur smám saman úr vindi, 8-15 m/s síðdegis og úrkomuminna. Hiti um frostmark. Norðaustan 5-13 m/s á morgun. Bjart að mestu vestanlands, en dálítil él um landið austanvert. Frost 0 til 6 stig, en sums staðar frostlaust við sjávarsíðuna.

Veðurspáin fyrir höfuðborðarsvæðið er svohljóðandi:  austan 13-20 m/s, hvassast á Kjalarnesi. Dregur hægt úr vindi í dag, austan 8-13 í kvöld, en 5-10 á morgun. Skýjað með köflum og þurrt að mestu. Hiti 0 til 4 stig, en frystir seint á morgun.

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV