Brýnt að umboðsmaður þekki til jafnréttismála

18.02.2016 - 07:07
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jafnréttisstofa telur brýnt að ef stofnað verður til embættis umboðsmanns aldraðra að hann hafi þekkingu á jafnréttismálum. Í umsögn Jafnréttisstofu um embætti umboðsmanns aldraðra er lögð áhersla á aldraðar konur og karlar séu ekki endilega í sömu stöðu.

Dæmi séu um aldraðar konur sem búi við fátækt; með minni réttindi í lífeyrissjóðum og færri eignir. Þá geti heilsufar kynjanna verið mismunandi eftir kyni, aldri, félagslegri og fjárhagslegri stöðu. 

Öldungaráð Reykjavíkurborgar styður í sinni umsögn heils hugar stofnun embættis umboðsmanns aldraðra og fagnar tillögunni. 

Sveitarfélagið Árborg leggur til að að verði af stofnun embættis umboðsmanns aldraðra að þá verði litið til góðrar reynslu af starfi réttindagæslumanns fatlaðra. Góð reynsla sé af þeirri starfsemi sem gæti staðið vel með starfi réttindagæslumanns aldraðra. Brýnt sé að samfella sé í þjónustu fatlaðra þegar þeir verða aldraðir.
Aldraðir þurfi réttindagæslumann til að standa vörð um hagsmuni þeirra og tryggja úrlausn viðkvæmra mála.