Brotið gegn 231 dreng í kór páfabróður

08.01.2016 - 17:22
epa04635295 The Pielenhofen Abbey in Pielenhofen, Germany, 24 February 2015. The building hosted the preschool of the famous 'Regensburger Domspatzen' choir which became notorious for its abuse of pupils. The Regensburg diocese announded 24
 Mynd: EPA  -  DPA
Að minnsta kosti 231 barn í einum frægasta og elsta barnakór heims, var beitt ofbeldi. Þetta kemur fram í áfangaskýrslu lögfræðings sem ráðinn hefur verið til að rannsaka ásakanir um ofbeldi innan kórsins og á heimavistarskóla honum tengdum. Sumir drengjanna voru barðir illa, aðrir sveltir og enn öðrum nauðgað. Flest brotin voru framin á seinni hluta áttunda áratugarins.

 Kórinn, Regensburger Domspatzen, á sér yfir þúsund ára langa sögu og er líklega þekktasti drengjakór Þýskalands.

Bróðir Benedikts páfa XIV, Georg Ratzinger, var kórstjóri Domspatzen í þrjá áratugi, frá 1964 til 1994. Það er á því tímabili sem meginhluti ofbeldisins átti sér stað, að því er fram kemur í fjölmiðlum. Ratzinger segir að meint kynferðisofbeldi hafi aldrei komið til umræðu, þann tíma sem hann stýrði kórnum.

Fyrrum nemandi í skólanum greindi frá því í viðtali við Der Spiegel, árið 2010, að í skólanum hafi tíðkast refsingar sem virtust tengjast kvalalosta. Fjölmörg hneykslismál hafa komið upp undanfarin ár innan kaþólsku kirkjunnar. Upplýst hefur verið um mikið og gróft kynferðisofbeldi af hálfu presta, meðal annars í jesúítaskóla í Berlín, á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Fátítt er að ofbeldismennirnir þurfi að svara til saka, þar sem glæpirnir eru oftast fyrndir. Háværar kröfur hafa verið uppi um að lögum verði breytt og að kirkjan greiði þolendum ofbeldisins bætur.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV