Brjótast ekki inn nema ríkar ástæður séu til

04.01.2016 - 22:20
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Friðhelgi einkalífsins er heilög og við brjótumst ekki inn til fólks nema mjög ríkar ástæður séu til, segir Árný Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Eftirlitið hefur verið gagnrýnt fyrir að bregðast ekki betur við ástandi íbúðar sem er óíbúðarhæf vegna myglu og raka og torveldar sölu annarra íbúða í húsinu.

Íbúar í fjölbýlishúsi í Reykjavík ætla að leita til dómstóla til að gera einum íbúa að selja og flytja á brott. Hann hefur vanrækt í mörg ár að láta gera við íbúð sína sem er mjög skemmd af myglu. Málið hefur gengið í að minnsta kosti þrjú ár og enn þá hefur ekkert verið gert þó svo Heilbrigðiseftirlitið hafi metið íbúðina óíbúðarhæfa. Lögmaður húsfélagsins sagði í fréttum að Heilbrigðiseftirlitið hefði getað gert meira í málinu t.d. skoðað íbúðina að eigin frumkvæði en ekki beðið eftir því að íbúar og íbúinn sjálfur óski eftir skoðun.

Samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir hefur Heilbrigðiseftirlitið heimild til að hafa lögreglu með sér til að skoða íbúðir. Árný segir að Heilbrigðiseftirlitið fari ekki að eigin frumkvæði í að skoða íbúðir. 

„Við getum auðvitað beðið lögregluna að hjálpa okkur að fara inn á einhverja staði þar sem við teljum vera almanna hættu eða eitthvað slíkt en ef við ætlum að fara inn á einkaheimili fólks þarf náttúrlega að undangangast dómsúrskurður og slíkt. Og vissulega er friðhelgi einkalífsins bara heilög og við brjótumst ekki inn til fólks nema mjög ríkar ástæður séu til ekki frekar en lögreglan.“

Mál þurfi að vera mjög alvarleg til að dómsúrskurður fáist til að fara inn á einkaheimili, eins og t.d. opin skolplögn, meindýr, yfirvofandi efnaleki o.s.frv.

„Það þarf að vera eitthvað mjög alvarlegt sem varðar almannaheill það er eiginlega það sem málið snýst um.“ [Fréttamaður: „Er ástandið í umræddri íbúð þá ekki nógu alvarlegt til að þið færuð inn í hana í lögreglufylgd?“] „Ég myndi ekki segja það á þessu stigi. Nú þarf náttúrlega að reyna að fá manninn til að laga og slíkt og svo þyrfti húsfélagið kannski að skoða mögulegan leka frá þaki því vatn rennur ekki upp í móti.“