Brjóstamjólkurprótín drepur bakteríur

23.01.2016 - 04:02
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Prótín úr brjóstamjólk inniheldur vörn gegn ýmsum bakteríum. Þetta kemur fram í rannsókn Staðlaráðs Bretlands og University College of London.

Agnarsmátt brot úr prótíninu lactoferrin er þess valdandi að það drepur bakteríur, sveppi og jafnvel veirur við snertingu. Myndaðar voru litlar bólur með prótíninu sem notaðar voru til þess að flytja ögnina í frumur. Slíkar bólur er hægt að fylla með lyfjum. Einn nemendanna sem vann að rannsókninni sagði ögnina hafa haft áhrif um leið og hún komst í snertingu við bakteríur í tilraun þeirra.  Rannsóknarteymið telur niðurstöðurnar geta hjálpað til við að berjast gegn ónæmi við sýklalyfjum. Prótínið gæti jafnvel hjálpað til við að lækna sjúkdóma sem hingað til hafa verið ólæknandi, til dæmis sigðkornablóðleysi eða slímseigjusjúkdóm, en vandamálið hingað til hefur verið að koma lyfjunum inn í frumur.

Rannsóknina má finna í nýjasta tímariti breska efnafræðiritsins Chemical Science.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV