Brexit: Víðtækar lagaheimildir vekja ugg

13.09.2017 - 15:18
Breska þingið samþykkti í fyrrinótt svokölluð afnámslög, lög sem nema úr gildi lög frá 1972 um aðild Breta í Evrópusamvinnunni og öll lög sem hafa sprottið af þeirri aðild. Lögin eru nauðsynlegt skref á leið Breta úr Evrópusambandinu. Theresa May forsætisráðherra sagði frumvarpið nauðsynlegt til skýra stöðu Breta í viðræðum við ESB. Ýmsir hafa óttast að stjórnin fái þarna miklu víðtækari heimildir en þörf sé á.

 

Í Wales og Skotlandi, sjálfsstjórnarsvæðunum tveimur, telja stjórnmálaleiðtogar að breska stjórnin sé að fara framhjá sjálfsstjórn svæðanna.

Evrópsku lögin gerð að breskum

Með afnámslögunum svokölluðu, „the Great Repeal Bill,“ hljómar eins og breska stjórnin sé að leggja til afnám allra evrópskra laga sem hafa sprottið af upphaflegu aðildarlögunum 1972. Svo er þó ekki – evrópski lagabálkurinn verður gerður að breskum lögum. Þetta er talið nauðsynlegt til að hindra lagalegt tómarúm. Þarna eru lög um samkeppni, fjármálageirann, upplýsingavernd, sjávarútvegs- og landbúnaðarmál og umhverfismál svo eitthvað sé nefnt.

Einbeittur Brexit-vilji stjórnarinnar

Priti Patel þróunarráðherra kynnti afstöðu stjórnarinnar fyrir umræðurnar með því að hnykkja á einbeittum vilja stjórnarinnar til að Bretland yfirgæfi ESB þannig að útkoman kæmi Bretlandi sem best. Atkvæðagreiðslan væri mikilvægt skref til að tryggja niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í fyrra og breska hagsmuni.

Hinrik áttundi og valdaheimildir hans ganga aftur

Þó bæði þeir sem eru með og á móti úrgöngu Breta úr ESB séu sammála um að lög af þessu tagi séu nauðsynleg valda þau engu að síður pólitískum titringi. Stjórnin notar þarna umdeildar lagaheimildir kenndar við Hinrik 8., sextándu aldar kónginn sem var frægur fyrir samkrull kvennamála sinna og tengsl ensku krúnunnar við kaþólsku kirkjuna. 

Víðtækar lagaheimildir vekja ugg

Lögin gefa ráðherrum heimildir til lagasetningar án aðkomu þingsins. Önnur leið þótti ekki fær til að taka upp þúsundir lagagjörninga. Á hinn bóginn óttast ýmsir þingmenn að ráðherrar noti tækifærið til laumu-lagabreytinga. Það eru því nokkrir varnaglar í lögunum: stjórnin má ekki nota völdin sem fylgja lögunum til að skattleggja, búa til ný hegningarlög eða afnema mannréttindalög frá 1998. Og lögin falla úr gildi tveimur árum eftir að Bretar yfirgefa ESB. 

Sjálfsstjórnarsvæðin telja sjálfsstjórninni stolið

Þingmenn Skota og Walesbúa eru reiðir því frumvarpið gerir ekki ráð fyrir sjálfkrafa framsali mála til sjálfsstjórnarsvæðanna Wales, Skotlands og Norður-Írlands sem falla undir sjálfsstjórnarlög þessara svæða. 

Spennandi atkvæðagreiðsla

Stjórnin hefur aðeins meirihluta í þinginu með stuðningi norður-írska íhaldsflokksins, Sambandsflokki Úlster. Fyrir fram vakti það því nokkra spennu hvernig þingmenn stóru flokkanna greiddu atkvæði. Stjórnarþingmönnum var skipað að greiða atkvæði með frumvarpinu meðan lína í Verkamannaflokknum var að vera á móti því. Niðurstaðan varð að stjórnin náði 36 atkvæða meirihluta, 326 atkvæði gegn 290. Sjö þingmenn Verkamannaflokksins greiddu atkvæði með stjórninni.

Stjórnin hefur ekki bitið úr Brexit-nálinni

Stjórnin er þó ekki búin að bíta úr nálinni með frumvarpið því þetta var aðeins fyrsta atkvæðagreiðsla, önnur fylgir nú í vikunni og enn blikur á lofti. Eftir atkvæðagreiðsluna stóðu þingmenn í biðröð til að leggja fram alls 136 breytingartillögur. Flestar eru frá þingmönnum Verkamannaflokksins sem vilja almennt hindra að stjórnin noti nýju lögin til að draga úr ýmsum réttindum, til dæmis varðandi vinnurétt, umhverfi, neytendavernd og jafnrétti. 

Andóf áhrifamikilla stjórnarþingmanna

Áhyggjusamlegra fyrir stjórnina er að nokkrir áhrifamiklir íhaldsþingmenn, til dæmis Dominic Grieve sem átti að vera ESB-sinna ráðgjafi May forsætisráðherra, óttast einnig þessi auknu völd og hóta nú að greiða atkvæði gegn frumvarpinu, verði þeirra sjónarmið ekki tekin til greina. Í blaðagrein nýlega benti Grieve á að það færi ekki saman að flytja stjórn mála heim frá Brussel ef stjórnin notaði svo nýfengin völd til að sniðganga þingið. 

ESB-afstaða Verkamannaflokksins óklár

Afstaða Verkamannaflokksins er eftir sem áður nokkur ráðgáta. Það pirrar ýmsa ESB-sinna í Verkamannaflokknum að leiðtoginn Jeremy Corbyn sé eftir sem áður gamall ESB-andstæðingur. En í vikunni kom Corbyn á óvart þegar hann gaf í skyn að Bretar yrðu áfram aðilar að innri markaðnum þrátt fyrir að ganga úr ESB.

Corbyn sagði Verkamannaflokkinn kjósa samband sem gerði Bretum mögulegt að versla innan innri markaðarins. Það mætti þá ræða hvort það yrði út á formlega aðild, aðeins möguleg með fullri aðild að ESB eða innan einhvers konar viðskiptasamnings. 

Hnífjafnt fylgi stóru flokkanna tveggja en ólík ESB-afstaða

Þetta er kjarni málsins, hversu mikið þurfa Bretar að vera með til að njóta aðildargæðanna. Þetta er erfið umræða í báðum stóru flokkunum og báðir vilja líta út eins og sigurvegarar í Evrópuumræðunni. Og áhugavert að samkvæmt skoðanakönnunum er fylgi flokkanna tveggja hnífjafnt, 42 prósent.

 

Mynd með færslu
Sigrún Davíðsdóttir
Mynd með færslu
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi

Tengdar fréttir