Brexit-tíminn tifar

06.09.2017 - 17:00
Tíminn líður í skilnaðarviðræðum Breta og Evrópusambandsins. Á blaðamannafundi í Brussel fyrir helgi eftir þriðju samningalotuna sagði David Davis Brexit-ráðherra Breta að nálgun Breta í skilnaðarviðræðum við Evrópusambandið væri sveigjanleg og hugmyndarík meðan ESB tæki ferli framyfir fólk. En Michel Barnier aðalsamningamaður ESB hnykkti á að Bretar virtust halda að þeir gætu bæði verið fyrir utan ESB og líka mótað lagaumhverfið þar. Það gengi ekki.

Fátt fast í hendi nema skilnaðardagurinn 29. mars 2019

Það er ekki margt sem er klárt og tært í skilnaði Breta við Evrópusambandið en eitt er þó alveg ljóst: að úrgöngudagurinn verður á miðnætti 29. mars 2019, tveimur árum eftir formlega tilkynningu Breta um úrgöngu. Ef það á að semja á annað borð þarf bæði að vera búið að semja fyrir þann tíma um aðlögunartíma, sem breska stjórnin hefur nýlega viðurkennt að þurfi. Og svo um framtíðarsamband Breta og ESB eftir aðlögunartímann.

Davis kvartar yfir tímaþröng sem ESB reyni að nota sér

Í viðtali við breska ríkisútvarpið um helgina kvartaði David Davis Brexit-ráðherra Breta yfir að ESB væri að reyna að nota tímatakmörk til að þrýsta á Breta, ekki síst í erfiðasta málinu, skilnaðargreiðslu Breta til ESB.

Skammtíma tímamið og tveggja ára mið

Varðandi tveggja ára tímamörkin þá var það heima-pólitíkin sem þrýsti á stjórnina að hefja skilnaðarferlið í vor, mörgum ESB-andstæðingum fannst stjórnin vera sein að verki eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna í júní í fyrra. Breska stjórnin er því enn að glíma við að ferlið hófst áður en stjórnin hafði skilgreint markmiðin í þeim mýmörgu málum sem Bretar þurfa að semja um.

Þrennt sem þarf að afgreiða fyrir leiðtogafund í október

En það eru einnig áhyggjusamleg tímamið innan þessara tveggja ára. Í upphafi samninga í vor var ákveðið að áður en framtíðarsambandið yrði rætt þyrfti að afgreiða þrennt: borgararéttindi ESB borgara í Bretlandi og Breta í ESB, landamæri Írlands og Norður-Írlands og svo skilnaðargreiðslu Breta, það er fjárhagslegar skuldbindingar þeirra gagnvart ESB. Þetta á að vera frágengið fyrir leiðtogafund ESB 19. og 20. október.

Davis kvartar undan stífni ESB

Á blaðamannafundinum nú fyrir helgi eftir þriðju samningalotuna bar þeim Davis og Michel Barnier aðalsamningamanni ESB ekki saman um hver árangurinn væri. Davis vildi greinilega gera meira en Barnier úr því sem þegar hefði áorkast.

Davis kvartaði hins vegar undan stífni ESB meðan nálgun Breta væri bæði sveigjanleg og hugmyndarík. Bretar væru meðvitaðir um tímamörkin en boðskapur Davis um framhaldið var að báðir aðilar héldu áfram að tala saman með uppbyggilegum hætti, tækju fólk fram yfir formsatriði.

Barnier: Bretar geta ekki verið utan ESB og samt mótað lagaumhverfið

Barnier talaði einnig um hraðferð tímans og nefndi að hægt væri að funda oftar. Hann minnti menn á að hann og hans teymi ynnu samkvæmt umboði ESB og það væri umboð 27 landa. Hann sagði ESB virða afstöðu Breta um að taka alla stjórn í eigin hendur. Hins vegar kæmi fram í öllum greinargerðum Breta, sagði Barnier, að Bretar vilji setja eigin staðla og reglur sem þeir vildu svo að ESB viðurkenndi.

Nei, það gengur ekki, sagði Michel Barnier. Það er ekki hægt að vera utan ESB og samt móta lagaumhverfi sambandsins. Slíkt græfi undan heildarhugsun innri markaðarins sem Bretar hefðu sjálfir tekið þátt í að móta og þekktu því vel.

Lexíur á báða bóga

Barnier notaði líka tækifærið til að minna á lærdóminn af ESB, nú væri tíminn til að rifja upp hvaða þýðingu innri markaðurinn hefði eiginlega. Lexía sem Bretar hefðu ekki rætt nægilega undanfarin misseri. Í ræðu um helgina hnykkti Barnier á því sama, lexíunni sem mætti draga af ESB og Bretar þyrftu að læra. Breskir and-ESB-sinna fjölmiðlar tóku orð Barnier óstinnt upp, töldu að ESB þyrfti kannski líka sína lexíu.

Barnier og hans teymi semja á vegum framkvæmdastjórnar ESB en æðsti umbjóðandi landanna 27 er síðan ráðherraráð ESB sem þarf að samþykkja útkomuna. Erfið mál eru iðulega útkljáð á fundum ráðherraráðsins og þar skipta þá stærstu löndin mestu máli eins og víðar.

Breta munu reyna að deila og drottna

Bretar hafa frá upphafi gælt við þá hugmynd að geta kannski einhvern veginn att þjóðarleiðtogunum saman sér í hag. Raddir innan ESB hafa varað þá við að reyna slíkt en hvort þeir standast þá freistingu þegar á hólminn er komið er annað mál.  Og þá er líka spurningin hvort slíkt takist eða hvort Bretar reki sig á að samstaða sé í raun stærsta hagsmunamál landanna 27.

 

Mynd með færslu
Sigrún Davíðsdóttir
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi