Bretar standa við útgöngudyrnar

17.02.2016 - 18:58
epa05164261 British Prime Minister David Cameron (L) is welcomed by European Commission President Jean-Claude Juncker prior to a meeting at EU headquarters in Brussels, Belgium, 15 February 2016. Prime Minister David Cameron has in recent weeks been
 Mynd: EPA
Fræðimenn og forkólfar atvinnulífsins í Bretlandi ræða nú í fullri alvöru um hvað gerist ef Bretar segja sig úr Evrópusambandinu. Forsætisráðherra landsins býr sig undir erfiðar viðræður um úrbætur á ESB á leiðtogafundi sem hefst á morgun. Þá reynir hann að sannfæra samflokksmenn sína um að boðaðar umbætur á sambandinu tryggi hagsmuni Bretlands.

David Cameron hefur verið á fleygiferð undanfarna daga til að sannfæra Evrópuleiðtoga og forvígismenn ESB um nauðsyn umbóta.

Drög að samningi voru kynnt í byrjun mánaðarins.  Ekki er búið að ganga frá smáatriðum en það á að gera fyrir leiðtogafund sem hefst á morgun. Drögin kveða meðal annars á um undanþágur frá frekari Evrópusamruna og takmarkanir á bótagreiðslum til farandverkafólks.

Á meðal þeirra sem Cameron hefur fundað með eru Francois Hollande, forseti Frakklands, Martin Schultz, forseti Evrópuþingsins og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB.  Fyrir fundinn sagði Juncker enga varaáætlun tilbúna ef til brotthvarfs Breta úr ESB kæmi. Slíkt gæfi til kynna að framkvæmdastjórnin tæki það alvarlega að Bretland gæti horfið úr sambandinu.

Ef samkomulag næst á leiðtogafundinum er reiknað með að Cameron boði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Bretlands að ESB, líklega 23. júní. Evrópuleiðtogarnir eru samt ekki þeir einu sem breski forsætisráðherrann þarf að sannfæra. Fjölmargir áhrifamenn í hans eigin flokki eru andsnúnir ESB og þeir eiga líklega eftir að beita sér fyrir úrsögn úr sambandinu. Þar á meðal er Boris Johnson, borgarstjóri í Lundúnum, sem fundaði með Cameron í dag.

Johnson varðist allra frétta að fundi loknum en óskaði þó Cameron góðs gengis á leiðtogafundinum.

Alveg burtséð frá hvaða umbætur kunna að verða gerðar á sambandinu er ljóst að nokkur stuðningur er við úrsögn í samfélaginu, meðal annars vegna óánægju með frjálsa för verkafólks til landsins. Þá hugsa margir úr atvinnulífinu sér gott til glóðarinnar. Framkvæmdastjóri flutningafyrirtækis sem AP-fréttastofan ræddi við bjóst ekki við að úrsögn hefði teljandi áhrif á utanríkisviðskipti og afar gott yrði að vera laus við allt reglugerðafarganið frá Brussel.

Þetta er þó umdeilt, stuðningsmenn áframhaldandi aðildar benda meðal annars á EES-ríkin, sem standa utan sambandsins, þurfi samt að taka upp Evrópulöggjöfina, án þess að hafa nokkuð um það að segja. Og beinn kostnaður þjóðarbúsins við úrsögn gæti orðið umtalsverður.

Swati Dhingra, fræðimaður við London School of Economics og höfundur bókarinnar "Life After BREXIT:  What are the UK's options outside the European Union?" segir að búast megi við að landsframleiðsla Bretlands dregist saman um 6,5-9,0 prósent í kjölfar úrsagnar. Til samanburðar bendir hún á að landsframleiðslan dróst saman um sjö prósent eftir fjármálakreppuna 2008 og því hefði úrsögn úr ESB ámóta áhrif í efnahagslegu tilliti. Dhingra bætti því við að þar sem hagvöxtur væri nú í kringum tvö prósent mætti Bretland illa við slíkum samdrætti.

Og þess vegna þarf kannski ekki að koma á óvart að kannanir bendi til þess að meirihluti þjóðarinnar styðji ennþá áframhaldandi aðild, hvað sem gerast kann á næstu mánuðum.