Bretar kvarta oftar undan íslenskum bílaleigum

11.08.2017 - 18:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚVBí  -  RÚV
Breskir neytendur lenda oftar í deilum við íslenskar bílaleigur en bílaleigur í flestum öðrum Evrópulöndum. Kvörtunum hefur fjölgað gríðarlega til Evrópsku neytendaaðstoðarinnar vegna bílaleigna á Íslandi. Stjórnandi stofnunarinnar segir að koma verði á fót úrskurðarnefnd í slíkum deilumálum.

Breska ríkisútvarpið BBC birti nýverið frétt á heimasíðu sinni þar sem kemur fram að sífellt fleiri Bretar kvarti undan viðskiptum sínum við bílaleigur í Evrópu. Slíkum kvörtunum hafi fjölgað um þriðjung til ECC, Evrópsku neytendaaðstoðarinnar, undanfarna 12 mánuði. Í fréttinni kemur fram að breskir neytendur hafi helst lent í vandræðum á Spáni, Ítalíu, Möltu og á Íslandi. 

„Þetta er algjörlega í samræmi við okkar tölfræði. Við höfum séð gríðarlega aukningu á fjölda erinda sem okkur hafa borist á síðustu tveimur árum sérstaklega. Þannig að þetta kemur okkur ekkert gríðarlega á óvart,“ segir Ívar Halldórsson, stjórnandi Evrópsku neytendaaðstoðarinnar á Íslandi. Deilurnar snúist oftast um tjón sem verður á bílunum og uppgjör á slíku tjóni.

„Við höfum fengið nokkur mál þar sem leigutakar eru jafnvel komnir til síns heima, og búnir að skila bílnum án þess að athugasemdir hafi verið gerðar við leiguskil. En svo fá þeir allt í einu kröfu í heimabanka eða í tölvupósti frá bílaleigunni um að eitthvert tjón hafi átt sér stað, sem verið sé að rukka um.“

Geta þetta verið háar upphæðir?

„Já þetta geta verið nokkuð háar upphæðir, allt frá tugum upp í nokkur hundruð þúsunda.“

Minnihlutinn í SAF

Þegar Evrópska neytendaaðstoðin á Íslandi fær kvörtun inn á borð til sín leggur hún mat á málið og reynir að ná sáttum milli aðila. Ef ekki næst sátt getur eina leiðin fyrir neytandann verið sú að höfða mál á hendur bílaleigunni, sem getur reynst mjög dýrt. Í ákveðnum tilfellum getur neytandinn skotið málinu til Úrskurðarnefndar í ferðamálum, sem er samkomulagsnefnd Neytendasamtakanna og Samtaka ferðaþjónustunnar. Sú nefnd tekur þó einungis við málum sem varða fyrirtæki sem eru aðilar að samtökunum. Ívar bendir á að mikill minnihluti bílaleigna séu í þeim.

„Í Evrópu hefur verið innleidd tilskipun sem kveður á um það að það þurfi að vera til staðar úrlausnarnefnd sem neytendur geta vísað málum til, sem varða kaup á hvers kyns vöru eða þjónustu,“ segir Ívar. Slíka nefnd þurfi að setja á fót á Íslandi.

„Alveg klárlega. Og ég vona að það verði gert bráðlega. Þetta er Evróputilskipun og vonandi verður hún innleidd hér á Íslandi sem allra fyrst.“