Breivik leitar til Mannréttindadómstóls Evrópu

03.03.2016 - 22:10
Norwegian Anders Behring Breivik gestures as he appears in court to face terrorism and premeditated murder charges, Oslo, Norway, Monday, April 16, 2012. Breivik, who confessed to killing 77 people in a bomb-and-shooting massacre went on trial in Norway&
 Mynd: ASSOCIATED PRESS  -  AP Photo/Frank Augstein
Norski hryðjuverkamaðurinn Anders Breivik ætlar að fara með mál sitt fyrir Mannréttindadómstól Evrópu til að reyna að fá einungrunarvist sinni hnekkt.

Breivik hlaut 21 árs fangelsisdóm, með möguleika á framlengingu, fyrir að myrða 77 manns í júlí 2011. Hann drap átta í sprengingu við opinbera byggingu í Osló, og skaut 69 til bana í Útey. Flestir voru á unglingsaldri.

Breivik hefur verið í einangrun æ síðan. Hann ætlar í mál við norska ríkið fyrir brot á mannréttindasáttmála Evrópu. Hann segir að meðferð norskra stjórnvalda sé ómanneskjuleg og niðurlægjandi. Lögmaður Breiviks segir einangrunarvistina skaðlega andlegri heilsu hans.

Ríkissaksóknari í Noregi segir meðferðina á Breivik innan leyfilegra marka. Hann hefur aðgang að þremur klefum, einum til að gista í, öðrum til að stunda nám og þeim þriðja til líkamsræktar. Hann hefur einnig aðgang að sjónvarpi og tölvu, en ekki að netinu. Honum er ekki leyft að umgangast aðra fanga, en hann getur átt samskipti við fangaverði og annað starfsfólk fangelsins.