Breikkun ganga kostar helming af nýjum göngum

11.07.2017 - 10:00
Breikkun einbreiðra ganga kostar um helminginn af nýjum göngum og ekki stendur til að breikka þau göng sem fyrir eru, segir starfsmaður hjá Vegagerðinni. Hann segir umferð enn langt undir viðmiðum fyrir einbreið göng.

Bráðum þrjú einbreið göng 

Fern jarðgöng af tíu á Íslandi eru einbreið með útskotum. Tveir af þremur leggjum Ganga undir Breiðadals- og Botnsheiði, eða Vestfjarðaganga, Strákagöng við Siglufjörð, Múlagöng milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur og Oddsskarð milli Eskifjarðar og Norðfjarðar - sem verða fljótlega leyst af hólmi með tvíbreiðum Norðfjarðargöngum. 

Umferð undir viðmiðum

„Þetta er barns síns tíma, það má alveg segja það. En þetta þótti fullkomlega í lagi á sínum tíma. Einbreið göng voru ætluð upp að allt að þúsund bílum, er menn töldu. Það eru undir 300 bílum á Botnsdalsleggnum og 420 á Breiðdals á dag. Svo við erum langt frá því sem var miðað við,“ segir Guðmundur. Umferð í Múlagöngum er jafnframt undir viðmiðunum eða 673. Nú er stuðst við norska staðla sem eru 300 bílar fyrir einbreið jarðgöng, sem eru þó ekki gerð lengur.

Kostnaðarsamt að breikka einbreið göng

Öryggi vegfarenda í einbreiðum göngum hefur verið til umræðu eftir umferðslys í Vestfjarðagöngum síðasta föstudag. Það getur verið krefjandi að aka um einbreið göng. Átta sig á fjarlægðinni að bílunum sem koma á móti og hvenær tími er kominn til að víkja. Guðmundur segir ekki líklegt að ráðist verði í að breikka einbreiðu göngin. „Það er auðvitað framkvæmanlegt en það kostar sirka 50-60 prósent af nýjum göngum. Svo fyrr gerðist það líklega að það væri leitað leiða til að draga ný göng.“ Þá vísar Guðmundur til dæmis til Múlaganga.  Kostnaður felst í lögnum, styrkingu og sprautusteypu en einnig því að vinnuna þarf að gera án þess að loka göngunum til lengri tíma. Hjáleiðirnar mjög langar. „Það er gríðarlegur kostnaður sem að enginn sér. Við gætum alveg verið að tala um rúman milljarð per kílómeter af göngum.“

Bæta umferðaröryggi í göngum

Guðmundur segir að Vegagerðin hafi unnið markvist að því að undanförnu að bæta merkingar og umferðaröryggi. Þá er komið símasamband í öllum göngum Vegagerðarinnar, að Strákagöngum og Almannaskarðsgöngum undanskyldum.