Bregðast þurfi hraðar við í forræðismálum

08.03.2016 - 14:06
„Fyrst og fremst þarf að skilgreina þetta sem ofbeldi gegn barni og að þetta verði forgangsmál sem verði klárað á nokkrum vikum en ekki nokkrum árum eins og það er í dag,“ segir Heimir Hilmarsson, fyrrverandi formaður Félags um foreldrajafnrétti og félagsráðgjafi.

Fram kom í fréttum um helgina að feður eru 85 prósent þeirra sem höfðuðu svokölluð tálmunarmál í fyrra, þar sem öðru foreldrinu er meinað að hitta barn þrátt fyrir að hafa til þess rétt eða deila forræði. 

Heimir segir að það taki að minnsta kosti eitt og hálft ár að fá barn sótt inn á heimili í tálmunarofbeldismálum í dag. „Þá er verið að sækja barn fyrir kannski þriggja daga umgengni sem er alveg út úr kortinu vegna þess að þegar það eru tálmanir í gangi þá getur barnið þurft lengri umgengni, þessvegna flutning á lögheimili tímabundið í þrjá mánuði til að byggja upp tengsl.“

Rætt var við Heimi og Birgi Grímsson, núverandi formann félagsins, í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 

Birgir segir þörf á sérstökum fjölskyldudómstól hér á landi sem hefði á að skipa sérfræðingum í slíkum málum. „Þessi fjölskyldudómstóll gæti þá tekist á við öll mál sem tengjast fjölskyldum og eftir því sem fleiri mál komast inn á borð þá myndast ákveðin sérfræðiþekking.“  
Dómstóllinn gæti brugðist við innan við viku frá því beiðni kæmi inn. „Og haft úrræði til að draga foreldra í ráðgjöf, vegna þess að við teljum að með ráðgjöf væri hægt að koma í veg fyrir mjög mörg af þessum málum. Með því jafnvel að úrskurða barnið burtu frá heimilinu, þannig að skaðinn sé ekki að gerast á meðan verið er að finna lausnir á málinu.“

Birgir segir að í Frakklandi sé hægt að skjóta tálmunarmálum til fjölskyldudómstóls sem verði að bregðast við innan viku. „Þetta þarf að vera einhvern veginn þannig að hægt sé að bregðast við strax, vegna þess að tíminn er ofboðslega mikilvægur í þessum efnum.“

Neyðarrétturinn sé misnotaður

Þeir voru spurðir út í rétt foreldrisins til að halda barninu frá hinu foreldrinu vegna óæskilegrar hegðunar, til dæmis ef hitt foreldrið er í fíkniefnum eða ofbeldismaður.  „Neyðarréttur er mjög mikilvægur en hann gengur út á að þú getir haldið barninu og varið það í daga en ekki í vikur eða ár,“ segir Heimir. „Þessir dagar eru notaðir til að hafa samband við viðeigandi stofnanir; lögreglu, barnavernd, sýslumann, dómstóla. Allir þessir aðilar geta brugðist við. Sýslumaður getur úrskurðað samdægurs um að umgengni verði tekin af. [...] Það er bannað samkvæmt Mannréttindadómstólnum að taka barn frá foreldri án dóms og laga. Það er bannað. Þannig að foreldri hefur ekki þann neyðarrétt að taka barnið í margar vikur.“  

Birgir segir þá þekkja dæmi um föður sem hafi varið yfir þremur milljónum króna í mál í yfir þrjú ár. Hann hafi unnið einhver mál en ekkert hafi gerst. „Kerfið bregst ekki við og hann hefur ekki fengið að hitta barnið sitt í fimm, sex ár.“

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Morgunútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi