Braut sínar eigin lánareglur

18.02.2016 - 18:09
Hæstiréttur Íslands
 Mynd: RÚV
Hæstiréttur sneri í dag við dómi Héraðsdóms Reykjaness og dæmdi Festu lífeyrissjóð til þess að aflétta veðskuldabréfi af fasteign konu. Veðskuldabréfið var gefið út af annarri konu, sem er óskyld konunni, sem fasteignina átti. Hæstiréttur telur að sú kona hafi notið lakari réttarverndar en skyldmenni lántaka. Festa á að greiða dagsektir verði ekki búið að aflétta veðskuldabréfinu fyrir 4. mars.

Konan, sem höfðaði málið, krafðist þess að felld yrði úr gildi veðsetning í fasteign hennar í Reykjanesbæ sem var til tryggingar skuld samkvæmt veðskuldabréfi sem útgefið var af annarri konu vorið 2008. Höfuðstóll lánsins var 9,8 milljónir króna. Uppreiknuð fjárhæð lánsins var komin í tæpar 17 milljónir króna vorið 2014. 

Einstæðingur sem rétt hafði nóg fyrir mat

Konan heimilaði lánveitinguna „af góðmennsku“ segir í dómi Hæstaréttar. Hún er ekki blóðskyld konunni, sem tók lánið, en var nágranni hennar. Í dóminum kemur fram að konan sé algjör einstæðingur og hefði hún „rétt nóg fyrir sjálfa sig að versla í matinn“. Hún bar ekki vitni fyrir héraðsdómi því hún var þá komin með Alzheimer sjúkdóm. Konan sem tók lánið missti vinnuna eftir hrun, flutti til Noregs og sótti um greiðsluaðlögun hjá Umboðsmanni skuldara. 

 

Konan með minni vernd en skyldmenni

 

Í ársbyrjun 2008 setti Festa lífeyrissjóður lánareglur þar sem sagði að lán væru aðeins veitt gegn veði í íbúðarhúsnæði sem umsækjandi ætti eða væri að kaupa. Þó væri heimilt að lána gegn veði í íbúðarhúsnæði, sem skyldmenni lántaka ætti, enda væri lögð fram skrifleg yfirlýsing skyldmennisins um að hann gerði sér grein fyrir skuldbindingunum sem hann væri að taka á sig. 

Festa lífeyrissjóður gekk ekki úr skugga um hvort konan, sem veitti veðið, væri skyld lántakandanum og því að sjóðnum væri heimilt að lána gegn veði í húsnæði hennar. Sjóðurinn braut því lánareglu sína, segir Hæstiréttur. Af þeim sökum hafi hún notið lakari réttarverndar en skyldmenni lántakanda, sem hefðu þurft að leggja fram yfirlýsingu. 

Skeytti ekki um vönduð vinnubrögð

Í niðurstöðu dóms Hæstaréttar segir að ósanngjarnt hafi verið og andstætt góðri viðskiptavenju hjá Festa lífeyrissjóði að bera fyrir sig að konan hafi samþykkt að veðsetja fasteign sína enda hafi Festa brotið í bága við lánareglur sínar og hafi ekki skeytt um þær skyldur sem á lífeyrissjóðnum hvíldu um vönduð vinnubrögð við lánveitingar. 

Festu lífeyrissjóði var því gert að aflétta veðskuldabréfinu af fasteign hennar að viðlögðum dagsektum, 25.000 krónum, sem falli á frá 4. mars hafi bréfinu ekki verið aflétt. Festa á að greiða 600 þúsund krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Konan fékk gjafsókn og greiðir ríkissjóður kostnað hennar. 

 

 

 

 

 

 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV