Brahms og klarínettan

19.05.2017 - 15:46
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons.
Brahms-maraþon fór fram 30. apríl í tónleikaröðinni Tíbrá í Salnum í Kópavogi. Voru þar leikin öll verkin sem Brahms samdi fyrir klarínettuleikarann Richard Mühlfeld: klarínettukvintett, klarínettutríó og tvær sónötur. Tónleikarnir verða fluttir í þættinum „Í tónlistarlífinu“ sun. 21. maí og er athygli hlustenda vakin á því að þeim verður skipt í tvennt: fyrri hlutinn verður á dagskrá kl. 16.05, en seinni hlutinn kl. 22.10.

 

Það var árið 1891 sem Brahms heyrði fyrst í klarínettuleikaranum Richard Mühlfeld. Hann hreifst mjög af leik hans og skrifaði vinkonu sinni, Clöru Schumann: „Enginn leikur fallegar á klarínettu en herra Mühlfeld hérna.“ Brahms hafði verið að hugsa um að hætta að semja og setjast í helgan stein, en hrifning hans af klarínettuleik Mühlfelds varð til þess að hann samdi verkin fjögur sem öll þykja prýðilega heppnuð, einkum kvintettinn sem margir álíta eitt fegursta verk sem samið hefur verið fyrir klarínettu. Hann verður fluttur í fyrri hluta tónleikanna kl. 16.05 ásamt klarínettusónötu Brahms nr.2 í Es-dúr, en í seinni hluta kl. 22.10 verður tríóið leikið svo og klarínettusónata nr.1 í f-moll. Umsjón með tónleikunum hefur Una Margrét Jónsdóttir.

 

Una Margrét Jónsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Úr tónlistarlífinu