Bræður sitthvorumegin borðs - Árni vanhæfur

07.03.2016 - 17:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Árni Sigfússon var vanhæfur til að taka þátt í undirbúngi að styrkveitingum Orkusjóðs segir umboðsmaður Alþingis. Ástæðan er sú að stofnun sem bróðir hans veitir forstöðu var meðal umsækjenda. Valdimar Össurarson, sem kvartaði undan úthlutuninni, vill að ráðherra víki vegna málsins,

Bræðurnir Árni og Þorsteinn Ingi Sigfússynir voru sitthvorumegin borðs þegar styrkveitingar úr Orkusjóði voru undirbúnar. Þorsteinn Ingi er forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands sem sótti um og fékk styrk úr sjóðnum. Árni er formaður ráðgjafarnefndar sjóðsins sem sá um að undirbúa tillögur og leggja fyrir ráðherra til samþykktar.

Valdimar Össurarson, framkvæmdastjóri Valorku, sem hlaut engan styrk í úthlutuninni í fyrra, kvartaði til Umboðsmanns Alþingis. Sá birti á dögunum álit sitt um að Árni hefði verið vanhæfur og úthlutunin því ekki í samræmi við lög. Kjarninn greindi fyrst frá niðurstöðunni. Umboðsmaður vísaði á bug rökum ráðuneytisins sem sagði að hlutur Árna hefði verið svo lítilfjörlegur að lögum að hann teldist ekki vanhæfur. 

Umboðsmaður segir að það sé í verkahring dómstóla að úrskurða um hvort ríkið sé bótaskylt gagnvart Valorku. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir enga ákvörðun hafa verið tekna en gerir ráð fyrir að krefjast úrbóta hjá ráðuneytinu. Hann gagnrýnir Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og segir hana hafa brotið lög þar sem styrkirnir hafi verið veittir á grundvelli starfa manns sem var vanhæfur og úthlutunin því ekki í samræmi við lög. „Það hefur nú svo sem tíðkast hérlendis að ráðherrar hoppa ekkert voðalega hátt yfir því. Mér finnst kominn tími kominn til að endurskoða það. Ég reikna með að ég fari fram á það við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis að hún skoði málið og jafnvel kalli eftir afsögn ráðherra.“

Umboðsmaður Alþingis finnur sérstaklega að því hvernig atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið brást við frétt Fréttablaðsins um styrkveitingarnar. Ráðuneytið birti tilkynningu á vef sínum þar sem sagði að engin takmörk væru á því hverjir mættu sækja um styrki í sjóðinn. Þar voru jafnframt teknar fram þær upphæðir sem Valorka hafði fengið í styrki úr Orkusjóði og öðrum opinberum sjóðum. Umboðsmaður telur tilkynningu ráðuneytisins ekki í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti og réttmætisreglu. Ekki væri samhengi milli þeirrar umræðu sem brugðist væri við og þess að telja upp styrki sem Valorka fékk.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV