Börn og hælisleitendur hverfa í Noregi

16.01.2016 - 12:57
Mynd með færslu
 Mynd: EBU
Norsk stjórnvöld vita ekki hvar 781 barn sem kom í hælisleit til Noregs frá árinu 2013 er niðurkomið. 178 þessara barna voru ein á ferð. Í fyrra sóttu 31.145 um hæli Noregi og hafa hælisleitendur þar aldrei verið fleiri.

 

Á síðu Dagsavisen er vitnað til talna frá Útlendingastofnun Norðmanna, þar kemur fram að 5.297 af hælisleitendum í fyrra voru börn sem voru ein á ferð. 2.207 hælisleitendur sem komu til Noregs í fyrra fóru án þess að gera nokkra grein fyrir hvert. Þar af var 301 barn og af þeim voru 73 ein á ferð. Talsmenn hælisleitenda og hjálparsamtaka í Noregi hafa miklar áhyggjur af þeim hópi, börnum sem séu í afar viðkvæmri stöðu og geti orðið fórnarlömb mansals og ofbeldis á leið sinni til Evrópu og sú hætta hverfi ekki þó að þau séu komin til Noregs. Talsmaður barnaheilla í Noregi segir að fjöldi barna sem hverfa sé allt of mikill, hvorki sé nóg gert til að koma í veg fyrir að þau hverfi né til að finna þau.

Útlendingastofnunin segir mismunandi ástæður liggja að baki því að hælisleitendur fari frá Noregi. Margir vilji reyna leita hælis í öðrum Evrópulöndum, sumir snúi aftur heim, en viss fjöldi kjósi líka að láta sig hverfa og séu svo án skilríkja og utankerfis í Noregi eða öðrum löndum. Það er erfitt hlutskipti, segir Simon Stranger sem skrifað hefur um fólk án pappíra. Án þeirra fái menn ekki vinnu, síma eða fast heimilisfang og eigi erfitt með að leita til læknis eða lögreglu. Tilveran snúist um að skrimta. Stranger telur að í Noregi geti verið allt að tíu þúsund manns sem hafi engin skilríki.

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV