Boris safnar liði gegn ESB aðild

27.02.2016 - 18:26
epa05176621 Boris Johnson, Mayor of London (C) visits the Bond Street Crossrail Station, Central London, Britain, 23 February 2016. Johnson, one of the British Conservative party's best-known figures, announced on 22 February that he will campaign to
 Mynd: EPA
Boris Johnson, borgarstjóri Lundúna, hvatti í dag ráðherra í ríkisstjórn Davids Camerons að ganga í lið með sér og berjast fyrir úrsögn Breta úr Evrópusambandinu. Mjög hefur kólnað með Johnson og Cameron frá því borgarstjórinn ákvað að ganga í lið með þeim sem vilja hafna nýjum samningi um breytta aðild Breta í ESB.

Boris Johnson dró það nokkuð að gefa upp afstöðu sína, en svo tilkynnti hann fjölmörgum fréttamönnum fyrir utan heimili sitt að hann styddi úrsögn.

Fréttaskýrendur á Bretlandi segja að það styrki stöðu þeirra sem vilja yfirgefa Evrópusambandið umtalsvert að Boris Johnson hafi gengið til liðs við þá. Raunar efast sumir um heilindi hans og telja að hann hafi gengið í lið úrsagnarsinna til að styrkja stöðu sína meðal almennra flokksmanna í Íhaldsflokknum.

Það er almennt álitið að Johnson stefni að því að verða leiðtogi Íhaldsflokksins þegar David Cameron forsætisráðherra dregur sig í hlé. Cameron hefur sagt að hann ætli ekki að leiða flokkinn í næstu þingkosningum og eftirmaður hans verður valinn af almennum flokksmönnum.

Cameron gaf það sterklega til kynna í ræðu í Neðri málstofunni er hann kynnti samninginn við ESB að löngun Boris Johnson til að verða leiðtogi réði afstöðu hans nú. Johnson hefur hefur gefið í skyn að ef að Bretar velji úrsögn gætu þeir samið um enn betri kjör við ESB. 

Cameron hæddist að þessari afstöðu og veittist raunar harkalega að Boris Johnson án þess að nefna hann á nafn.

Cameron sagðist þekkja mörg hjón sem hafi hafið skilnaðarferli en engin sem hafi gert það vegna þess að þau ætluðu að endurnýja hjónabandsheitið og uppskar hlátur þingmanna. Boris Johnson neitar því að persónulegur metnaður ráði afstöðu sinni. Hann segist vilja endurheimta fullveldi Bretlands. 

 

Gunnar Hrafn Jónsson
Fréttastofa RÚV