Boris Johnson: Framtíðarleiðtogi Breta?

28.02.2016 - 18:17
epa04424267 Mayor of London, Boris Johnson holds aloft a brick as he delivers a speech at the government Conservative Party Conference in Birmingham, central England 30 September 2014. In his speech he touched on the theme that the party is building homes
 Mynd: EPA
Boris Johnson, borgarstjóri Lundúnaborgar, segir í viðtali við The Times að hann ætli að helga sig baráttunni fyrir úrsögn Breta úr Evrópusambandinu fram að þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Breta í júní.

Líklegt er að David Cameron forsætisráðherra fagni lítt þessum fréttum. Það var Cameron talsvert áfall þegar Boris Johnson ákvað að berjast gegn samkomulagi sem Cameron náði við leiðtoga Evrópusambandsins um breytta aðildarskilmála Breta. Johnson hrósaði forsætisráðherranum raunar fyrir hversu vel honum hefði orðið ágengt á þeim skamma tíma sem var til stefnu. 

En hver er Boris Johnson, þessi litríki stjórnmálamaður og af hverju skiptir afstaða hans svona miklu máli? Hann er rúmlega fimmtugur, fæddur í New York og með tvöfalt ríkisfang, hann er af yfirstéttarættum, menntaður í Eton fínasta einkaskóla Bretlands og Oxford háskóla, þar sem hann kynntist mörgum sem nú eru meðal leiðtoga Íhaldsflokksins.

Hann starfaði sem blaðamaður á The Times og var rekinn þaðan fyrir að skálda upp tilvitnun. Það hindraði ritstjórn Daily Telegraph ekki í að ráða hann. Hann reyndi að komast í framboð til Evrópuþingsins en varð ekki kápan úr því klæðinu. Hann var svo ráðinn ritstjóri tímaritsins The Spectator, sem er á hægri væng stjórnmálanna eins og Times og Telegraph. Johnson var kjörinn á þing 2001 og 2008 var hann kjörinn borgarstjóri í Lundúnum.  Hann ferðast mikið um á reiðhjóli og hefur gert ýmislegt til auðvelda hjólreiðafólki að komast um í Lundúnum. 

Boris Johnson er líklega vinsælastur af leiðtogum Íhaldsflokksins, en jafnframt umdeildur. Hann þykir hvatvís og fljótfær en hefur á sér vinalegan og alþýðlegan blæ og stundum jafnvel trúðslegan. Þá þykir hann geta verið afar orðheppinn.

Mörgum þykir hann samt heldur yfirborðskenndur og grunnfær, engu að síður höfðar hann til mikils fjölda og það er vegna þess sem stuðningsmenn úrgöngu úr ESB fögnuðu þegar hann gekk til liðs við þá.

 

Mynd með færslu
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV