Borgin ráðstafar 10 milljónum í Friðarsetur

03.03.2016 - 22:48
Höfði við Sæbraut. Esjan í bakgrunni.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Borgarráð samþykkti í dag þátttöku Reykjavíkurborgar í stofnun Friðarseturs, Höfði - Reykjavík Peace Center, í samstarfi við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands. Samkvæmt tillögu borgarstjóra er gert ráð fyrir að Reykjavíkurborg verji tíu milljónum króna til verkefnisins.

Friðarsetur verði formlega stofnað samhliða alþjóðlegum viðburði sem haldinn verði í tilefni af því að í ár eru 30 ár liðin frá leiðtogafundi Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta og Mikhail Gorbachev í Höfða. 

 

Skrifað var undir samstarfssamning milli Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands í janúar í fyrra um undirbúning stofnunar friðarseturs. Í frétt RÚV um málið kemur fram að  Jón Gnarr fyrrverandi borgarstjóri verður formaður ráðgjafanefndar setursins en að auk hans sitji í henni Silja Bára Ómarsdóttir, fyrir hönd Háskóla Íslands og Svanhildur Konráðsdóttir fyrir hönd Reykjavíkurborgar. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV