Borgin kaupir eitt elsta hús Reykjavíkur

14.09.2017 - 16:06
Mynd með færslu
 Mynd: Reykjavíkurborg
Reykjavíkurborg ætlar að kaupa eitt elsta hús borgarinnar, við Aðalstræti 10, á 260 milljónir króna. Þar á að setja upp sýningu um sögu Reykjavíkur. Þetta var samþykkt á fundi borgarráðs í dag. Þar var jafnframt samþykkt að bæta yfirbragð Víkurkirkjugarðs þannig að sýnilegra verði en nú er að þar var löngum kirkjugarður Reykvíkinga og síðar skrúðgarður.

Tengja á Víkurgarð við þá sýningu sem sett verður upp í Aðalstræti 10 og verður opnuð í september á næsta ári.

Auk milljónanna 260 sem fara í að kaupa húsið, sem Minjavernd hefur gert upp, verða 150 milljónir króna settar í sögusýningu og 40 milljónir í að bæta aðgengi fatlaðra og salernisaðstöðu. 

Ráðist verður í skipulagssamkeppni um Víkurkirkjugarð í samráði við Minjavernd. Þar á að gera sögunni hátt undir höfði á sama tíma og garðurinn verður nýttur á fjölbreyttan hátt, segir í tilkynningu frá borginni. Deilur hafa risið um framkvæmdir við hótel við enda Víkurgarðs, ekki síst þar sem á hluta lóðarinnar fundust minjar sem sýndu að kirkjugarðurinn hefði náð lengra en áður var talið. Umsjónarmaður fornleifarannsókna sagði að röskun fornminjanna hefði verið svo mikil að ekki væru forsendur fyrir því að stöðva framkvæmdir þar. Hópur áhugamanna um kirkjugarðinn hefur hins vegar barist fyrir því að helgi garðsins verði virt. 

Tillaga borgarstjóra um kaupin á Aðalstræti 10 voru samþykkt með fimm atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við afgreiðslu málsins. Þeir bókuðu að ekki hefðu komið fram nægileg rök fyrir því að Reykjavíkurborg keypti Aðalstræti 10 og setti þar upp sýningu fyrir samtals 450 milljónir króna. Þeir sögðu æskilegt að unnin yrði ítarlegri kostnaðaráætlun fyrir verkefnið. Þeir sögðu að svo virtist sem borgarfulltrúar meirihlutans væru með þessu að reyna að draga athyglina frá óviðunandi vinnubrögðum í málefnum Víkurkirkjugarðs. Borgarfulltrúar meirihlutans bókuðu á móti að fornleifauppgreftir í hjarta borgarinnar hefðu dýpkað og breytt sýn manna á upphaf byggðar í Reykjavík. Það auk hundrað ára afmælis fullveldis á Íslandi á næsta ári gæfi tilefni til að setja á fót safn um upphaf, sögu og þróun Reykjavíkur frá landnámi til nútímans. Þarna væri hægt að skapa einstaka sögusýningu.