Borgarstjóri heyrði af skólpmengun í fréttum

08.07.2017 - 12:40
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson  -  RÚV
Borgarstjóri segist fyrst hafa frétt af skólpmengun við Faxaskjól í fjölmiðlum, þótt skólpdælukerfi borgarinnar hafi verið bilað dögum saman og mörg hundruð milljónir lítra af skólpi hafi flætt í fjöruna.

Í tíu sólarhringa flæddu 750 lítrar af óhreinsuðu skólpi á hverri sekúndu út í hafið við Faxaskjól í Reykjavík, vegna bilunar í skólpdælustöð. Þetta er lengsta og alvarlegasta bilun sem orðið hefur á skólphreinsikerfinu frá upphafi, að sögn Orkuveitu Reykjavíkur. Um helmingur af öllu skólpi af höfuðborgarsvæðinu fer í gegnum stöðina. Ekki var tilkynnt um málið fyrr en fréttastofa RÚV greindi frá því. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segist ekki hafa verið upplýstur um málið. „Ég, eins og aðrir, frétti af þessu þegar málið fer í fjölmiðla,“ segir Dagur. „Þarna var tilkynnt um þessa bilun og Heilbrigðiseftirlitið vaktaði þetta í kjölfarið en aðrar tilkynningar voru ekki gefnar út.“

„Hefði verið eðlilegt að láta vita“

Í 10. grein laga um upplýsingarétt um umhverfismál segir að stjórnvöldum sé ævinlega skylt að hafa frumkvæði að upplýsingagjöf sé ástæða til að ætla að frávik vegna mengandi efna í umhverfi geti haft í för með sér hættu eða skaðleg áhrif á umhverfi eða heilsu fólks eða dýra. Aðspurður hvort borgaryfirvöldum beri ekki að láta vita, lögum samkvæmt, ef einver hætta er talin á mengun, segir Dagur: „Jú, sannarlega, og Heilbrigðiseftirlitið passar það, að ef að hætta er á ferðinni, þá eru gefnar tilkynningar um það. En þarna var ekki talið að slík hætta væri á ferðinni en ég hefði nú talið eðlilegt, engu að síður, að láta vita af biluninni, þannig að fólki hefði ekki þurft að bregða þegar hún dróst á langinn.“

Veitur tilkynntu Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur um bilunina þegar hún kom upp. Niðurstöður sýnatöku þá sýndu að gildin féllu innan þeirra marka sem heimil eru fyrir baðstaði í náttúrunni. Sýni sem tekin voru á fimmtudag sýndu saurgerlamengun langt yfir mörkum í fjörunni við Faxaskjól. Fulltrúi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sagði í samtali við RÚV í gær að þau gildi væru þó mun lægri en í Tjörninni í Reykjavík. Þegar þau sýni voru tekin hafði verið lokað fyrir flæði skólps í fjöruna í næstum sólarhring. Fréttastofu er ekki kunnugt um að önnur sýni hafi verið tekin á þeim tíu dögum sem skólpið flæddi út og fær ekki upplýsingar um það fyrr en eftir helgi, samkvæmt svari frá Reykjavíkurborg.