Borgarstjóri bregst við gagnrýni Sigmundar

27.08.2015 - 14:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, auglýsti ákveðnar skipulagsbreytingar á Hörpu-reitnum án þess að leggja til róttækar breytingar þegar hann var varaformaður skipulagsráðs borgarinnar. Fátt hafi breyst síðan þá - nema til batnaðar, skrifar borgarstjórinn í Reykjavík.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, birti í hádeginu nokkuð ítarlega færslu á Facebook-síðu sinni. Þar bregst hann við hvassri gagnrýni Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, á skipulagsmál í miðborg Reykjavíkur sem birtist á vefsvæði hans í morgun.

það er ánægjulegt að fá umræðu um uppbyggingu í borginni. Margir þmt fjölmiðlar hafa óskað eftir viðbrögðum við sjónarmi...

Posted by Dagur B. Eggertsson on 27. ágúst 2015

Dagur segir von á frekari svörum síðar í dag - hann eigi eftir að lesa alla grein forsætisráðherra sem sé löng. Borgarstjórinn segir að aldrei hafi fleiri hús verið vernduð sem áður mátti rífa „en einmitt á allra síðustu árum.“ Og hann er ósammála forsætisráðherra um að byggja hótel á Ingólfstorgi. „Ég held að við eigum að standa vörð um torgin okkar og gera þau líflegri og skemmtilegri. Það er nóg verið að byggja allt í kring.“

 

Í skipulagsmálum er mikilvægt að leggja línur á þann hátt að það skapi jákvæða hvata en ekki neikvæða, ýti undir fegrun...

Posted by Sigmundur Davíð Gunnlaugsson on 27. ágúst 2015

 

Dagur segir að gagnrýni Sigmundar um uppbyggingu á Hörpu-reit veki sérstaka athygli. Borgarstjórinn skrifar: „Þar voru ekki gömul hús heldur bensínstöð og Faxaskáli sem var úrelt birgðageymsla sem notuð var sem bílaplan undir það síðasta. Í dag eru þetta óbyggðir reitir eða bílastæði, að ógleymdri holunni við Hörpu. Ríki og Reykjavíkurborg seldu þessar lóðir sameiginlega og eru þær nú í höndum einkaaðla. Og þess má geta að Sigmundur Davíð sjálfur var um tíma varaformaður skipulagsráðs Reykjavíkur og auglýsti ákveðnar skipulagsbreytingar á Hörpu-reitunum, án þess að leggja til á þeim róttækar breytingar. Það hefur fátt breyst frá þeim tíma, nema til batnaðar, við höfum lagað skipulag gatnakerfisins og minnkað byggingarmagn.“

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV