Borgarstjóra beri að axla ábyrgð á skólpleka

15.07.2017 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson  -  RÚV
Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins gagnrýndi viðbrögð borgarstjóra við skólplekanum og sagði hann þurfa að biðjast afsökunar. Hann hafi hlaupist undan ábyrgð með því að svara ekki fyrir lekann fyrr en eftir þrjá sólarhringa. Borgarstjóri segir Sjálfstæðisflokkinn reyna að gera málið pólitískt og beina því gegn honum persónulega.

Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur, sagði í Vikulokunum á Rás 1 í morgun að rannsaka eigi hvort skólpkerfi borgarinnar séu hætt að anna því magni skólps sem kemur frá borginni með fjölgun ferðamanna. „Það þarf að skoða betur hvernig eigi að meta áhættu í svona kerfum. Það þarf að fara yfir hvort það sé jafnvel of mikið álag á kerfinu, það er auðvitað miklu meira álag vegna allra ferðamannanna. Það þarf að skoða,“ sagði Áslaug. 

Tveir fulltrúar minnihlutans í borgarstjórn, Áslaug Friðriksdóttir og Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallavina, gagnrýndu Dag B. Eggertsson borgarstjóra harðlega í þættinum fyrir að axla ekki ábyrgð á skólplekanum við Faxaskjól.

Áslaug sagði að Dagur hefði hlaupist undan ábyrgð með því að svara ekki fyrir málið þegar fréttir um það birtust í fjölmiðlum. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og stjórnarmaður í OR, hefði verið fyrstur til að svara fyrir málið og þegar Dagur hafi kom fram í fjölmiðlum, þremur sólarhringum eftir fyrstu fréttir af lekanum, hafi hann komið fram með ásakanir í garð Kjartans um að hafa einn vitað um málið. „Mér finnst að hann eigi að nota tækifærið og biðja Kjartan opinberlega afsökunar,“ sagði Áslaug.

Gera málið pólitískt og persónulegt

Dagur sagðist ekki kannast við þessa lýsingu Áslaugar. „Þarna voru gerð mistök og Veitur hafa beðist afsökunar. Það sem ég sagði þegar málið var borið undir mig var sem satt var að ég hefði frétt af því í fjölmiðlum, og það vakti athygli. Það er rétt að Kjartan Magnússon hafi upplýst um það strax í upphafi að stjórn OR hafi vitað um málið þannig að ég undanskyldi Kjartan þegar ég var spurður hvort enginn í borgarstjórn hefði vitað af þessu. Þá vissi ég ekki að Áslaug hefði líka verið á fundinum. Það felst enginn áfellisdómur í því að hafa haldið því til haga að stjórn Orkuveitunnar hafi vitað af þessu þótt borgarstjórn hafi ekki vitað af þessu,“ sagði Dagur og sagðist ekki telja þetta aðalatriði í málinu.

„Það er rétt að það hefur verið reynt að gera þetta mál pólitískt að einhverju leyti. En mér hefur ekki fundist áberandi að það hafi verið gert af hálfu meirihlutans, það er frekar að fólk, ekki síst innan úr Sjálfstæðisflokknum hafi verið mikið í mun, og kannski með Morgunblaðið fremst í flokki, að tengja það við mig og mína persónu, sem einhvern áfellisdóm yfir mínum störfum en það er bara eitthvað sem maður verður að búa við þegar maður sinnir embætti borgarstjóra í Reykjavík, hvort sem það er nú sanngjarnt eða ekki,“ sagði Dagur.

Getur ekki fríað sig ábyrgð

Guðfinna sagði að henni fyndist alvarlega að borgarstjóri hafi ekki vitað af lekanum heldur en að ekki hefði verið upplýst um hann. „Auðvitað getur borgarstjóri ekki fríað sig þessari ábyrgð,“ sagði hún. Guðfinna benti á að þrátt fyrir að fram hefði komið í fyrstu frétt RÚV af málinu að lekinn hefði verið í tíu daga hafi nýjustu sýni verið þriggja vikna gömul. „Af hverju líða næstum þrjár vikur þar til borgarstjóri heyrir í fréttum af lekanum? Hvers vegna veit hann ekki af þessu fyrr?“ spurði hún. „Það þarf að gera stjórnsýsluúttekt á þessu máli og hvernig standi á því að engin sýni hafi verið tekin frá 19. júní til 5. Júlí þegar fréttir berast af málinu,“ sagði Guðfinna.

Dagur sagði þetta allt spurningar sem þurfi að fá svör við. „Stóra málið er að fólk geti treyst því að það sé látið vita ef ástæða er til að hafa áhyggjur. Við þurfum að fara yfir þetta og tryggja að upplýsingagjöf sé í lagi,“ sagði hann. „Mér finnst þetta ekki í lagi og ég hef ekki legið á þeirri skoðun,“ sagði hann.