Borgarstarfsmenn skammaðir fyrir hatursummæli

20.01.2016 - 21:58
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nokkrir starfsmenn Reykjavíkurborgar hafa fengið tiltal fyrir að hafa á opinberum vettvangi látið hatursfull ummæli falla um fólk vegna trúarskoðana þeirra, kynhneigðar eða uppruna.

 

Lögregla höfuðborgarsvæðisins hefur hafið átak í því að sporna gegn hatursglæpum. Reykjavíkurborg ætlar að taka þátt í átakinu. „Við getum ekki liðið það að fólk verði fyrir ofbeldi vegna þess að það er af ákveðnum uppruna, það hafi ákveðna kynhneigð eða það sé ákveðinnar trúarskoðunar,“ segir Anna Kristinsdóttir, mannréttindastjóri Reykjavíkur. 

Við sögðum frá því fréttum okkar á mánudag að Sverri Agnarssyni, sem er múslimi, hefur verið hótað líkamsmeiðingum og lífláti. Þá hefur Nadia Tamimi fengið hatursfull ummæli send í textaskilaboðum í síma. 

„Auðvitað vill enginn búa við það að eiga vona á því að einhver ráðist að sér í myrkrinu fyrir það eitt að hafa ákveðnar trúarskoðanir til dæmis,“ segir Anna. 

Tiltal og sáttamiðlun

Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar lét í hitteðfyrra rannsaka hatursorðræðu í ummælakerfum íslenskra netmiðla og leiddi hún í ljós að algengast er að fordómafull ummæli séu sett fram í garð múslima. Anna segir að málinu hafi verið fylgt eftir. „Það eru rúmlega 8.000 starfsmenn sem vinna hjá Reykjavíkurborg og við höfum reynt að gæta þess að menn gæti hófs í opinberri umræðu um svona eins og það sem fellur undir hatursglæpi. Það hefur komið fyrir að það hefur þurft að veita starfsmönnum okkar, eins og annarra eflaust, ákveðið tiltal vegna þess að menn hafa kannski farið offari í umræðunni.“

Anna getur ekki nefnt hversu margir hafi fengið tiltal. Hún segir að svonefnd sáttamiðlun þar sem fólk fær fræðslu um ólík sjónarmið geti verið til bóta. „Þar sem menn eru að reyna að tala á milli ólíkra hópa og held að það sé eitthvað sem við þurfum kannski í meira og meira mæli að fara að gera.“

Mynd með færslu
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV