Borgarráð ræði áskorun um viðræður við ríkið

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sundabraut krefst aðkomu Faxaflóahafna ekki síður en ríkisins, segir Ólafur Bjarnason samgöngustjóri Reykjavíkurborgar, í umsögn sinni til umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur í vikunni. Undirbúningur fyrir umdeilt mannvirki taki langan tíma. Hann vísar áskorun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um viðræður við ríkið til nánari umfjöllunar í borgarráði.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í ráðinu fóru fram á það í október 2013 að farið yrði í viðræður við ríkið um framtíð Sundabrautar. Á fundi umhverfis- og skipulagsráð 6. janúar síðastliðinn var erindinu vísað vísað til umhverfis- og skipulagssviðs, og er tilefni umsagnar samgöngustjóra. Umsögn samgöngustjóra var samþykkt á fundinum. Í henni fjallar hann um hvað hafi gerst í málinu frá því verkefnið var lagt til hliðar eftir hrun. Þá var umhverfismat á leiðinni, sem Sundabraut átti að fara, langt komið. 

Í bókun á fundinum í vikunni segja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins að tillaga um slíkar viðræður ætti ekki að koma neinum í opna skjöldu í ljósi þess að brautin hafi verið á aðalskipulagsuppdráttum borgarinnar frá árinu 1975. Tillagan gangi út á að kostnaðargreina verkefnið, vinna arðsemismat, finna leiðir til fjármögnunar, gera áfangaskiptingu og tímasetja framkvæmdina. Tillagan hafi verið lögð fram í október árið 2013 en ekkert hafi verið gert með hana í meira en tvö ár.

Hægt að fjármagna með veggjöldum

Starfshópur innanríkisráðherra komst að þeirri niðurstöðu í mars í fyrra að hægt væri að fjármagna Sundabraut í Reykjavík að fullu með veggjöldum ef hún væri byggð í einum áfanga. Greint var frá þessu í fréttum RÚV. Þrennt þyrfti þá að koma til; að Kleppsvík verði þveruð frá Kleppi með brú eða göngum þannig að innri leiðin verði ekki farin, að hinar leiðirnar verði brúaðar en ekki gerðar með öðrum hætti, og að lokum að verkið verði skoðað sem heildstæð framkvæmd. Tekið var sérstaklega fram að ef aðeins fyrsti áfangi yrði byggður þyrfti fjárframlag frá ríkinu. Niðurstaða starfshópsins er aðeins frumgreining. Lagt er til að ráðherra láti gera útboðsramma þar sem byggingu og rekstri er lýst, og skoða hverjir væru tilbúnir að koma að verkinu. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV