Borgaralaun ekki komin á stefnuskrá Pírata

16.02.2016 - 08:09
Birgitta Jónsdóttir, kapteinn Pírata, segir að borgaralaun séu ekki orðin að stefnu flokksins heldur sé þetta hugmynd sem vert sé að kanna í þaula. Fyrr komist hugmyndin ekki á stefnuskrána. Gagnrýni forsætisráðherra á hugmyndina beri með sér að hann sé farinn að hugsa til kosninga.

Rætt var við Birgittu í Morgunútvarpinu á Rás 2. Hún segir að borgaralaun séu ekki óraunhæf hugmynd. Í stað þess að vera með mörg kerfi eins og lífeyrissjóðina, Fæðingarorlofssjóð og Tryggingastofnun yrði öllum greidd grunnframfærsla. 

„Tilraunir hafa verið gerðar með þetta í litlum samfélögum, í Kanada fyrir löngu. Það tókst mjög vel. Margir óttast að fólk hætti að vinna og samfélögin geti ekki rekið sig en það sem gerist er að fólk vinnur meira.“ Annað en nú þegar skerðingar koma á móti vinnu og því lítill hvati fyrir lífeyrisþega og öryrkja að vinna, segir Birgitta. 

Þingsályktunartillaga og skýrslubeiðni

Halldóra Mogensen, varaþingmaður Pírata, lagði fram þingsályktun um að settur yrði á starfshópur til að taka saman alla tölfræði. Takist að koma þeirri ályktun í gegn verði hægt að skoða hvort þetta sé möguleg leið, segir Birgitta. Ekki sé búið að mæla fyrir þingsályktuninni. Hún hyggist því leggja fram skýrslubeiðni, það sé auðveldari leið og hún fari hraðar gegnum þingið. Sjaldgæft sé að þingsályktanir fari í gegn alla leið. 

Birgitta segir að allir Íslendingar fengju ákveðna framfærslu óháð stöðu. „[Stjórnmálaflokkurinn] Podemos lét kanna þetta á Spáni og þar kom í ljós að þetta væri ekki dýrara en að reka kerfin eins og þau eru því fólk mun halda áfram að vinna og skattar koma frá þeim og neyslu í samfélaginu.“ Á móti tekjum sem fólk fengi með þessum hætti þá myndu almannatryggingar, lífeyriskerfin, atvinnuleysisbætur og annað falla niður. „Mér finnst athyglisvert að fá fram upplýsingar um hvað það sem margir kalla báknið kostar. Nú er Tryggingastofnunarkerfið það flókið að það skilur ekki nokkur maður. Það er alltaf verið að tjasla í einhver göt þar.“

Stefnan mótuð þegar upplýsingar liggi fyrir

Píratar hafi áhuga að móta sér stefnu í þessu máli en fyrst verði að afla upplýsinga áður en tekin er upplýst ákvörðun. „Mér finnst nauðsynlegt að skoða kerfin okkar frá grunni og þetta er gott tækifæri til að athuga hvort það séu til aðrar leiðir en sú sem við förum í dag. Hún virðist ekki vera að virka, það falla allt of margir á milli. Pressan sem er á fólki, sem er að eignast börn, að fara strax á vinnumarkað [...] það er ekkert svigrúm. Við erum svo ofboðslega mikið inni í iðnaðarsamfélagsstrúktúr sem hentaði þegar það voru bara verksmiðjur.“ Þetta níu til fimm samfélag passar ekki við þann veruleika sem við búum við í dag, segir Birgitta.  

Birgitta segir ekki tímabært að nefna beinar upphæðir í borgaralaun. Sigmundur Davíð hefur sagt að þetta séu hugmyndir jaðarflokka, þetta sé ekki komið í gegn neins staðar, það sé hvergi verið að gera þetta og menn farið frá þessu því þetta sé óraunhæft. „Finnska ríkisstjórnin er ekki beint jaðarríkisstjórn og hún er að kanna þetta. Það hefur enginn horfið frá þessu ennþá.“ Ef það kemur í ljós í miðju ferli að þetta virkar ekki þá hverfum við frá þessu, segir Birgitta. 

Ekki töfralausn - trygginga-og bótagreiðslur sparist á móti

Birgitta segir Sigmund ekki taka með í reikninginn það sem sparist við upptöku borgaralauna. „Mér finnst hann bara vera að slengja fram einhverju til að taka frá athyglina frá því að hann er ekki að standa við stóru loforðin: Hvar eru þessir hrægammasjóðir sem hann ætlaði með sleggju til að ná í peningana. Ábyrgðin á leiðréttingunni hvílir á þjóðinni. Hvar eru lög um verðtrygginguna? Ég spurði hann að því í gær og hann svaraði engu um það. Ég sé ekki fyrir mér að Píratar myndu lofa að gera eitthvað svona án þess að kanna hvort það sé mögulegt. Það er ólikt því sem margir flokkar gera. Eins en flokkur forsætisráðherra; því var lofað beint að það væri ekkert mál að afnema verðtrygginguna. Svo er einhver hópur settur í gang sem kemst að þeirri niðurstöðu að það sé ómögulegt. Reyndar eitthvað klofin þessi nefnd og talað um að það eigi ekki að heimila verðtryggð lán til 40 ára. En það hefur ekkert komið fram til að laga það. Fyrir utan að ef þú ætlar að taka út 40 ára lánin, sem eiga að vera góð fyrir þá efnaminni, hvað á þá að koma í staðinn?“ 

Borgaralaun séu ekki töfralausn. Píratar myndu ekki leggja fram slíka stefnu án þess að hún væri möguleg. Þetta sé á hugmyndaborðinu þar til tölfræðin liggi fyrir. Birgitta segir fráleitt að tala um tölur áður en skýrslan hefur verið lögð fram. Tilgangurinn með þingsályktuninni sé að fá upplýsingar til að byggja á. „Aðalatriðið er að þetta er ekki orðið að stefnu okkar, það er ekki búið að kynna þetta almennilega í flokknum eða setja þetta inn í kosningakerfið. Þannig að það að setja þetta upp eins og forsætisráðherra eins og þetta sé eitthvað sem við myndum gera ef við fengjum umboð til að stjórna landinu. Það er kosningabragur á þessu og hann er að reyna að taka athyglina af sínum eigin vanefndum.“  

Algengt sé að flokkar lofi öllu milli himins og jarðar rétt fyrir kosningar og svo sé ekkert hægt að standa við það. „Ein af ástæðunum fyrir því að við erum hrifin af því að hafa opnara og beinna lýðræði er til að stjórnmálamenn geti ekki komist upp með svona hegðun og svo sitji maður uppi með þetta fólk í fjögur ár og geti ekkert gert.“