Bónusgreiðslur fyrir hrun ásættanlegar

12.01.2016 - 01:32
John A. Thain, the Chief Executive Officer of the New York Stock Exchange, speaks to the press during a press conference at the NYSE in NEw York Thursday 5 FEB 2004. Thain discussed the NYSE's board decision to approve the expansion of access to
 Mynd: EPA
Eignabólur gætu verið farnar að myndast á mörkuðum að mati Johns Thain, fyrrverandi yfirmanns fjárfestingasviðs bandaríska bankans Merill Lynch. Það sé þó erfiðara að henda reiður á viðskiptunum því þau fari í auknum mæli fram utan bankakerfisins. Í viðtali við þýska Handelsblatt segir Thain, sem nú er einn bankastjóra breska CIT bankans, að hann líti ekki svo á í dag að bónusgreiðslur sem hann fékk frá Merrill Lynch fyrir hrun hafi verið óásættanlegar.

Thain segir að lánaviðskipti fari nú í auknum mæli fram utan bankakerfisins, í skuggabankakerfum, viðskiptaþróunarfyrirtækjum og innan vogunarsjóða. Þá segir hann að verð á íbúðarhúsnæði sé verulega hátt þessa dagana. Allt þetta bendi til þess að eignabólur séu að myndast á mörkuðum. „Vandamálið við fjármálakrísur er að þær myndast aldrei á sama hátt og áður," segir Thain.

Hann segir að sumar fjármálastofnanir séu of stórar, en að lögmálið um að stofnanir séu of stórar til að falla eigi enn við. Það á þó aðeins við um tíu fjármálastofnanir að mati Thain. Vandamálið sé að það eigi ekki aðeins við um bandarískar fjármálastofnanir. Ef menn ætli í samkeppni við Deutsche Bank, HSBC, UBS eða Credit Suisse verði þeir að hafa risastórar alþjóðlegar fjölþættar fjármálastofnanir.

Þegar blaðamaður Handelsblatt spurði Thain út í bónusgreiðslur í stjórnartíð hans hjá Merrill Lynch sagðist hann ekki sjá eftir neinu. Engar greiðslur sem hann hafi greitt eða fengið greiddar hafi verið óásættanlegar.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV