Bóndi lagði Póst- og fjarskiptastofnun

19.03.2017 - 12:09
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv  -  rúv
Hæstiréttur hefur fellt úr gildi ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar sem ætlaði að láta bónda á Vestfjörðum greiða kostnað af breytingum á rafmagnsgirðingu og símalínu á landi hans. Maðurinn hóf búskap við Patreksfjörð árið 1980 og setti upp rafmagnsgirðingu ári síðar. Tveimur árum eftir það var símalína lögð um jörð hans, án þess að bóndinn fengi bætur fyrir. Rúmum 30 árum síðar krafði Póst- og fjarskiptastofnun bóndann um úrbætur og sagði rafmagnsgirðingu bóndans trufla símasamband.

Stofnunin vildi að bóndinn bæri kostnað af framkvæmdunum og gaf út ákvörðun þess efnis. Bóndinn sætti sig ekki við það og fór með málið fyrir dómstóla. Hann vann það á báðum dómstigum, nú síðast í Hæstarétti á fimmtudag. Dómkvaddur matsmaður lagði mat á kostnað við breytingar á símalínu og rafmagnsgirðingu. Breytingarnar á símalínunni hefðu getað kostað 1,6 til 2,4 milljónir króna, og kostnaður við breytingar á girðingunni hefði getað verið frá hálfri milljón upp í tvær milljónir króna.

Ástæðan fyrir því að Póst- og fjarskiptastofnun og Míla vildu láta ráðast í breytingar var sú að á árunum 2011 og 2012 fóru að berast tilkynningar um að símasamband á þessum slóðum væri ekki með besta móti. Smellir heyrðust á línunni. Þetta var rakið til rafmagnsgirðingar á jörð bóndans þar sem símalínan var lögð. 2013 krafði Póst- og fjarskiptastofnun bóndann um úrbætur en hann neitaði því að hann bæri ábyrgð á þessu. Undir það tóku dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur og Hæstarétt. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV