Bólusetningaandstæðingur bannaður í Ástralíu

31.08.2017 - 06:40
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bandaríkjamanni, sem segist vera höfuðandstæðingur bólusetninga í heiminum, hefur verið bannað að koma til Ástralíu. Þangað hugðist hann fara í desember til að kynna bækur og aðgerðaráætlun til að koma í veg fyrir bólusetningar barna í Bandaríkjunum.

AFP fréttastofan hefur eftir Peter Dutton, ráðherra innflytjendamála í Ástralíu, að fólk á borð við Kent Heckenlively eigi ekkert erindi við áströlsku þjóðina. Hann og hans líkir séu hættulegir. Hann geti því ekki gert neinar áætlanir um að ferðast um Ástralíu, því honum verði vísað frá reyni hann að komast til landsins.

Stjórnvöld í Ástralíu eru í mikilli bólusetningarherferð þessi misserin. Nú er svo komið að þeir foreldrar sem neita að bólusetja börnin sín hljóta ekki barnabætur frá ríkinu eða önnur hlunnindi. Yfir 5.700 börn foreldra sem áður neituðu að bólusetja börnin sín hafa nú fengið sprautur. Yfir 90 prósent barna á aldrinum eins til fimm ára eru bólusett í Ástralíu.

Bólusetningar leiddu til þess að sjúkdómar á borð við mislinga, hettusótt og rauða hunda þurrkuðust nánast út. Með tilkomu hreyfingar sem setur sig á móti bólusetningum hafa þessir sjúkdómar aftur látið á sér kræla í auknum mæli. Margir þeirra sem eru á móti bólusetningum segja þær hafa leitt til fjölgunar einhverfutilfella, en sú kenning hefur margsinnis verið hrakin í vísindarannsóknum. Bandarísk rannsókn frá því í sumar sýnir að jafnvel örlítil fækkun bólusetninga barna geti fjölgað mislingatilfellum þrefalt.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV