Boðar byltingu í orkumálum heimsins

10.06.2014 - 03:49
Mynd með færslu
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hvetur heimsbyggðina til að umbreyta hugsunarhætti sínum um orkumál. Nú þegar sé til tækni á sviði jarðhita, sólarorku og vindorku sem væri hægt að nýta á smærri mælikvarða en nú er gert, til að mynda fyrir hvert heimili fyrir sig, minni þorp, héröð eða bæi.

Þannig gæti hvert heimili fyrir sig verið sitt eigið orkuver. Þetta sagði forsetinn á ráðstefnuunni SE4ALL, sem stendur fyrir „sjálfbær orka fyrir alla." Ráðstefnan var haldin 4.-6. júní í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Fjöldi þjóðarleiðtoga, vísindamanna og stjórnenda fyrirtækja sóttu ráðstefnuna.

Ólafur Ragnar lagði sérstaka áherslu á sólarorku í ræðu sinni. Nauðsynlegt væri að gera byltingu á rannsóknum í sólarorku, með það að markmiði að gera nýtingu sólarorku að ódýrari kosti fyrir neytendur. Ólafur líkti slíkri byltingu við Apollo-geimferðaáætlun Bandaríkjanna, sem miðaði að því að koma manni til tunglsins - sama hvað það kostaði.