Boðað til mótmæla um allt Frakkland

12.09.2017 - 05:39
epa06191661 French President Emmanuel Macron and Greek Prime Minister Alexis Tsipras (unseen) attend a roundtable discussion with French and Greek business leaders at the Stavros Niarchos Foundation Cultural Center, in Athens, Greece, 08 September 2017.
Í ræðu sem Macron flutti um Evrópumál í Aþenu sagðist hann aldrei munu láta undan kröfum letingja. Þau orð hafa fallið í grýttan jarðveg meðal franskrar verkalýðsforystu.  Mynd: EPA-EFE  -  AFP POOL
Næststærstu verkalýðssamtök Frakklands, CGT, blása til kröfugöngu og mótmælafunda á 180 stöðum í dag, þar sem fyrirhuguðum breytingum á vinnulöggjöf landsins verður mótmælt. Starfsfólk orkufyrirtækja, opinberra samgöngufyrirtækja, olíufyrirtækja og þungaiðnaðar hvers konar er fjölmennt í röðum CGT og er búist við að það flykkist á mótmælafundina.

Verkalýðshreyfingin í Frakklandi er lítt hrifin af boðaðri umbyltingu Emmanuels Macrons, nýkjörins Frakklandsforseta, á frönsku vinnulöggjöfinni, sem verkalýðsforystan segir eingöngu hygla hinum ríku á kostnað almennings. Þótt einungis CGT - eitt af þremur risaverkalýðsfélögum Frakklands - standi að mótmælunum í dag, telja fréttaskýrendur að þátttakan í þeim muni gefa ágæta hugmynd um hve víðtæk og sterk andstaðan við breytingarnar er meðal hinna vinnandi stétta.

Lætur ekki undan letingjum

Sjálfur hefur Macron lýst því yfir að hann muni aldrei láta undan mótmælendum á götum úti. Raunar tók hann svo hraustlega til orða um þetta atriði í ræðu sem hann hélt í Aþenu á dögunum, að það gæti vel orðið til þess að mótmælendur verði fleiri en ella hefði verið. Þar sagðist hann ekkert munu gefa eftir, „hvorki gagnvart letingjunum, bölsýnisfólkinu né öfgaöflunum.“

Formaður CGT, Phillippe Martinez, brást ókvæða við þessum orðum forsetans í blaðinu Le Parisien um helgina og spurði við hverja forsetinn ætti þegar hann talaði um að gefa ekki eftir gagnvart hinum lötu. „Meinar hann allar þær milljónir sem eru atvinnulausar?“ spur'i Martinez. Talsmaður forsetans bar fram þá skýringu að Macron hefði verið að vísa til forvera sinna í forsetahöllinni með orðum sínum; vilja- og getuleysi þeirra til að koma raunverulegum umbótum í gegn.

„Letingjar“ Frakklands hvattir til mótmæla

Þessi skýring virðist ekki sannfæra leiðtoga verkalýðshreyfingarinnar og áhrifamenn á vinstri væng stjórnmálanna. Þannig hefur Jean-Luc Mélénchon, fyrrverandi formaður Vinstri flokksins og mótframbjóðandi Macrons í forsetakosningunum, hvatt „alla letingja landsins“ til að fjölmenna á mótmælafundina í dag. Forsetinn verður þó fjarri góðu gamni, því hann er farinn til Vestur-Indía að kynna sér afleiðingar fellibylsins Irmu á frönsku eyjunum St. Martin og St. Barts.  

Mótmælafundirnir verða ekki allir á sama tíma. Í Marseilles hefst fundur klukkan 10 að staðartíma, hálftólf í Lyon en í París verður mótmælt klukkan tvö að staðartíma, eða tólf á hádegi að íslenskum tíma.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV