Bloomberg íhugar forsetaframboð

epa05121541 (FILES) A file photo dated 28 November 2012 of then New York City Mayor Michael Bloomberg delivering remarks during a news conference on New York's request for federal aid following Hurricane Sandy, on Capitol Hill in Washington DC, USA.
 Mynd: EPA  -  EPA FILES
Milljarðamæringurinn og fyrrum borgarstjóri New York, Michael Bloomberg, íhugar að bjóða sig fram til forseta Bandaríkjanna á þessu ári. Frá þessu greindi hann í viðtali við Financial Times sem birtist í dag.

Bloomberg gagnrýnir lélegar rökræður frambjóðendanna og segir í viðtalinu að hann sé að skoða alla möguleika varðandi hugsanlegt framboð. Hann segir umræður frambjóðendanna bæði lágkúrulegar og smánarlegar og þær séu móðgun við kjósendur. Bandaríska þjóðin eigi mun betra skilið.

New York Times greindi frá því í janúar að Bloomberg hafi rætt hugsanlegt framboð við ráðgjafa sína. Hann myndi þá bjóða sig fram sjálfstætt, það er utan flokka, og að öllum líkindum eyða einum milljarði Bandaríkjadala í kosningabaráttuna.

Bloomberg, sem er 73 ára gamall, stofnaði fjölmiðlasamsteypuna sem ber sama nafn. Auður hans er margfaldur á við auð Donalds Trump. Eignir Bloombergs eru metnar á 40 milljarða dala en Trumps 4,5 milljarða. Hann var í demókrataflokknum til ársins 2001 þegar hann varð repúblikani. Hann ákvað svo að vera utan flokka 2007. Talið er að framboð hans myndi hafa mikil áhrif á kosningabaráttuna. Líkur eru á því að hann hirti atkvæði frá kjósendum demókrataflokksins vegna frjálslyndra skoðana varðandi skotvopnaeftirlit, fóstureyðingar og náttúruvernd.

Bæði Trump og Bernie Sanders hafa látið hafa eftir sér að þeir myndu njóta þess að heyja kosningabaráttu við Bloomberg. Hillary Clinton segir Bloomberg góðan vin sinn og hún muni létta af honum þörfinni að bjóða sig fram með því að vinna útnefningu demókrataflokksins sjálf.
Bloomberg ætlar að taka ákvörðun um framboð í byrjun mars.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV