Bloomberg býður sig ekki fram

epa05121541 (FILES) A file photo dated 28 November 2012 of then New York City Mayor Michael Bloomberg delivering remarks during a news conference on New York's request for federal aid following Hurricane Sandy, on Capitol Hill in Washington DC, USA.
 Mynd: EPA  -  EPA FILES
Bandaríski auðkýfingurinn og fyrrum borgarstjóri New York, Michael Bloomberg, ákvað í kvöld, eftir nokkurra mánaða yfirlegu, að gefa ekki kost á sér til forsetaframboðs í haust. Í yfirlýsingu sinni sagði hann að miðað við útreikninga sína yrði framboð hans aðeins til þess að hjálpa annað hvort Donald Trump eða Ted Cruz til þess að komast á forsetastól, og það geti hann ekki haft á samviskunni.

Bloomberg segir marga hafa komið að máli við sig og hvatt hann til þess að bjóða sig fram vegna óánægju með þá sem þegar eru í sviðsljósinu í kosingabaráttunni.

Orðrómur um framboð Bloombergs hefur verið haldið lengi á lofti. Í janúar sagði New York Times frá því að ráðgjafar hans hafi verið beðnir um að marka stefnu hugsanlegs framboðs. Reiknað var með því að hann myndi fjármagna kosningabaráttu sína sjálfur. Auður Bloombergs er metinn á 40 milljarða Bandaríkjadala og reiknað var með að hann myndi nota einn milljarð dala í kosningabaráttuna, sem samsvarar tæpum 130 milljörðum króna.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV