Blóðug átök á mótmælafundi Ku Klux Klan

28.02.2016 - 11:37
epa02942302 (20/25) Members of the Knights of the Southern Cross of the Ku Klux Klan (KSCKKK), joined by members of other Virginia Klan orders, hold a cross lighting ceremony on private property near Powhatan, Virginia, USA, 28 May 2011. The Invisible
 Mynd: EPA  -  EPA
Þrír voru fluttir á sjúkrahús með stungusár eftir að hörð átök brutust út á milli liðsmanna Ku Klux Klan og andstæðinga þeirra í Anaheim í Kaliforníu. Samtökin höfðu boðað til mótmæla gegn réttindabaráttu blökkufólks og voru nokkrir liðsmenn þeirra að undirbúa mótmælafundinn þegar hópur fólks umkringdi þá.

Sjónarvottar segja að sumir í hópnum hafi slegið til mannanna með fjölum og sparkað í þá. Þeir vörðust með fánastöngum og stungu þrjá með stöngunum - einn er þungt haldinn á sjúkrahúsi.

Nokkrir reyndu að ganga á milli hópanna, meðal annars gyðingur sem segist hafa dregið einn liðsmann KKK út úr þvögunni og spurt hann hvernig tilfinning það væri að fá lífsbjörg frá gyðingi. Hann segir að maðurinn hafi þakkað sér fyrir aðstoðina. Lögreglan skakkaði að lokum leikinn og handtók samtals þrettán manns úr báðum hópum.

Gunnar Hrafn Jónsson
Fréttastofa RÚV